Málefni Stofnfisks

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:03:06 (1462)

1998-12-02 13:03:06# 123. lþ. 30.91 fundur 127#B málefni Stofnfisks# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:03]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Í upphafi verður að geta þess að tilefni þeirrar umræðu sem hér fer fram er framganga hæstv. landbrh. nú á haustdögum við að auka hlutafé í Stofnfiski hf. og hvernig hann hefur hingað til staðið að einkavæðingu þess fyrirtækis. Það hefur verið með hreinum ólíkindum, virðulegi forseti, hversu illa mér hefur gengið að afla upplýsinga og fá gögn fyrir þessa umræðu. Það er sama hvar hefur verið borið niður, hvort heldur munnlega eða skriflega, alls staðar hef ég rekist á veggi. Ráðherra og Ríkisendurskoðun hafa engar upplýsingar viljað veita um málið.

Eins og alkunna er er Alþingi ætlað m.a. að hafa eftirlit með því að ráðherrar fari að lögum. Það er því mjög alvarlegur hlutur þegar svo er komið fyrir Alþingi að eiga það undir geðþóttaákvörðun einstakra ráðherra hvort það fái sinnt þessu stjórnarskrárbundna hlutverki sínu. Það þarf ekki annað en benda á nýlegar upplýsingar sem fram hafa komið um sölu SR-mjöls auk samninga sem gerðir hafa verið um eftirlaunaréttindi til að sýna fram á nauðsyn þess að þetta eftirlit Alþingis sé virkt.

Stofnfiskur hf. er mjög sérstakt fyrirtæki í laxeldi. Fyrirtækið er nokkurs konar erfðabanki íslensks laxeldis sem hefur haft það hlutverk að stunda kynbætur fyrir laxeldi. Það má því fullyrða að þetta ríkisfyrirtæki og starfsemi þess sé lykillinn að því að íslenskt fiskeldi verði samkeppnisfært við fiskeldi annars staðar í heiminum í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Af þeim gögnum sem ég hef þó náð að afla mér virðist mér sem einkavæðing Stofnfisks hf. hafi átt að fara fram í kyrrþey sl. sumar en illu heilli fyrir aðstandendur félagsins og aðra velunnara tók Ríkisendurskoðun upp á því að eigin frumkvæði að krefjast þess að fram færi fjárhagslegt uppgjör á því áður en til fyrirhugaðrar hlutafjáraukningar kæmi og sölu hlutafjár í samræmi við lög og reglur um einkavæðingu. Samkvæmt heimildum mínum kemur fram í úttekt Ríkisendurskoðunar í fyrsta lagi að við samanburð á útflutningsskýrslum og tekjufærslu í bókhaldi Stofnfisks hf. hafi tekjur fyrirtækisins verið vantaldar um a.m.k. 14 millj. kr. í ársreikningi fyrir árið 1997. Aðallega var þar um að ræða sölu afurða til Chile í desembermánuði. Þetta er talsverð fjárhæð, virðulegi forseti, í ljósi þess að heildarvelta fyrirtækisins á árinu 1997 var rétt rúmlega 90 millj.

Í öðru lagi segja heimildir mínar að fram komi í sömu úttekt að eignir sem félagið keypti á árinu 1997 hafi ekki verið eignfærðar sem skyldi og efnahagsreikningur fyrirtækisins því nokkuð veikari en efni stóðu til.

Í þriðja lagi hafi ekki verið samræmi í áætlanagerð fyrirtækisins fyrir árið 1998 sem gerði það að verkum að erfitt var fyrir lesendur að gera sér grein fyrir niðurstöðutölum. Niðurstaða mín er sú að svo virðist sem ársreikningur Stofnfisks hf. fyrir árið 1997 hafi verið rangur og ekki gefið rétta mynd af stöðu fyrirtækisins. Hugsanlega hafi við gerð hans verið brotið gegn ákvæðum almennra hegningar- og bókhaldslaga. Um það verður þó ekki fullyrt hér. Þessi atriði gátu auðveldlega leitt til þess að fyrirtækið yrði selt á undirverði sem kaupendur hefðu væntanlega notið og þá væntanlega á kostnað ríkissjóðs. Það hefði því að mínu viti verið eðlilegra þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar lá fyrir að hæstv. landbrh. og/eða jafnvel Ríkisendurskoðun hefði á þeim tímapunkti vísað málinu til frekari meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra í stað þess að halda einkavæðingu þess áfram.

Þá herma heimildir mínar að minnisblað sem deildarstjóri lögfræðideildar og skrifstofustjóri ráðuneytisins unnu fyrir ráðherra, dags. 30. ágúst 1998, geymi einmitt tilmæli til ráðherra um að láta rannsaka þetta mál frekar því hugsanlegt sé að landslög hafi verið brotin. Þrátt fyrir varnarorð Ríkisendurskoðunar, starfsmanna ráðuneytisins auk skýrslu sérfræðinga virðist vera sem landbrh. sendi framkvæmdanefnd einkavæðingar málið í september þar sem þess er óskað að hún haldi áfram vinnu við að einkavæða fyrirtækið.

Virðulegi forseti. Það er að mínu mati nauðsynlegt í þessari umræðu að hæstv. landbrh. geri þingheimi miklum mun betri grein fyrir aðgerðum sínum í þessu máli og geri jafnframt þau gögn opinber sem ég hef í ræðu minni vitnað til og sýnt fram á hvað sé raunverulega rétt í þessum efnum. Það er algerlega fráleitt að þessum upplýsingum sé haldið frá Alþingi.

Þá tel ég nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari því hér og nú í þessari umræðu hvort rétt sé að hann hafi verið varaður við því af starfsmönnum ráðuneytisins að halda áfram með þetta mál í einkavæðingarformi á minnisblaði, sem ég vitnaði til áðan og er dagsett 30. ágúst 1998. Það er mjög alvarlegur hlutur, virðulegi forseti, ef hæstv. landbrh. hefur látið slík varnaðarorð sem vind um eyru þjóta þegar deildarstjóri lögfræðideildar í hans eigin ráðuneyti geldur jafnmikinn varhug og mér er tjáð að hann hafi gert við því að málið haldi áfram í þessum farvegi.

Virðulegi forseti. Það er auk þess algerlega óásættanlegt að fyrir Alþingi skuli nú liggja beiðni í fjárlögum frá ríkisstjórninni um að veita henni heimild til sölu á þessu fyrirtæki fyrir árið 1999 ef Alþingi á ekki jafnframt að geta fengið þær upplýsingar sem nauðsynlegt er að liggi fyrir áður en Alþingi tekur afstöðu til málsins. Virðulegi forseti. Önnur niðurstaða er gersamlega ótæk fyrir Alþingi og virðingu þess.