Málefni Stofnfisks

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:24:27 (1468)

1998-12-02 13:24:27# 123. lþ. 30.91 fundur 127#B málefni Stofnfisks# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þessi umræða er afar alvarleg fyrir Alþingi. Þingmenn eiga þess greinilega ekki lengur kost að sinna eftirlitshlutverki sínu og þetta er síendurtekið efni. Þingmenn fá ekki svör sem beðið er um, svör eru óskýr eða jafnvel röng.

Nú á að selja fyrirtæki sem liggur undir gagnrýni og þá er aðgangur að upplýsingum heftur. Ráðherrann sem er kominn til að svara þingmanninum og þingmaðurinn eru ekki að tala sama tungumálið. Ráðherrann virðist koma með tilbúið svar varðandi Stofnfisk. Hann svarar ekki spurningum þingmannsins. Hann svarar því t.d. ekki hvort embættismenn hafi varað hann við með minnisblaði eins og þingmaðurinn spurði um. Við sitjum hér og hlustum á umræðuna og hún er bara sitt úr hvorri áttinni.

Herra forseti. Farið er að bera á hroka sumra ráðherra í garð Alþingis. Þeir svara fyrirspurnum seint, með eftirgangsmunum af hálfu þingmanna og jafnvel að undangengnum bréfaskiptum við Ríkisendurskoðun --- stofnunina okkar. Staða Ríkisendurskoðunar annars vegar gagnvart Alþingi og hins vegar gagnvart framkvæmdarvaldinu er bara alls ekki skýr lengur í hugum þingmanna. Þingmönnum kemur greinilega ekki við hvaða gögn fara á milli Ríkisendurskoðunar og ráðherranna. Hér kemur greinilega fram að þingmaður sem biður um upplýsingar fær þær ekki.

Ég spyr, herra forseti: Er verið að þróa Alþingi í þá átt að það sé að verða afgreiðslustofnun fyrir ríkjandi meiri hluta á hverjum tíma? Er það það sem er að gerast með þessa mikilvirku stofnun í þjóðfélagi okkar? Þingmenn eiga kost á svörum eins og almenningur. Ekkert annað. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað á að gera í þessu?

Ég tek undir kröfuna um að pappírarnir eiga bara að koma á borð þingmanna núna. Ég lít svo á að það sé að verða búið að við komum hér og spyrjum og spyrjum, fáum engin svör eða að okkur sé bara blakað út í loftið. Nú eiga svörin bara að koma, herra forseti.