Fráveitumál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:49:30 (1482)

1998-12-02 13:49:30# 123. lþ. 30.4 fundur 258. mál: #A fráveitumál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi RA
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í marsmánuði 1995 tóku gildi lög um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Samkvæmt þeim geta sveitarfélög fengið styrki úr ríkissjóði á tímabilinu frá 1995--2005 vegna framkvæmda við fráveitur, rotþrær, hreinsi- og dælustöðvar og útrásir. Þessi fjárhagslegi stuðningur ríkisins getur numið allt að 200 millj. kr. á ári eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum. Hann er þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 20% af staðfestum heildarraunkostnaði, eins og segir í 4. gr. laganna.

Skemmst er frá því að segja að sveitarfélög víða um land hafa látið fagmenn vinna fyrir sig skýrslur um nauðsynlegar aðgerðir í fráveitumálum til að fullnægja kröfum laga og reglugerða um meðhöndlun og hreinsun skolps og reynast þær framkvæmdir vera gríðarlega kostnaðarsamar. Samanlagður kostnaður sveitarfélaga í landinu mun nema milljörðum kr. Sem dæmi má nefna að Siglufjarðarkaupstaður mun þurfa að kosta til upphæð á bilinu 140--180 millj.

Ég hef talið óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. umhvrh. nánar út í þennan kostnað, fá hann sundurgreindan eftir sveitarfélögum þannig að við getum áttað okkur á stærð þessa vanda. Flest bendir til þess að sveitarfélögunum sé ógerlegt að leggja í kostnað af þessari stærðargráðu án frekari stuðnings en gert er ráð fyrir að þau fái í gildandi lögum.

Eins og ég nefndi áðan þarf Siglufjarðarkaupstaður einn að standa í framkvæmdum sem eru nokkuð á annað hundrað millj. Styrkurinn sem hann fær frá ríkinu er aðeins 30 millj. kr. þannig að menn sjá auðvitað að lítil sveitarfélög ráða ekki við þennan kostnað óstudd. Auk þess kemur inn í myndina að ríkissjóður mun hafa tekjur af virðisaukaskatti af framkvæmdunum, kannski jafngildi styrksins. Af þessum sökum hef ég lagt fram fyrirspurnir um þetta mál í fimm liðum á þskj. 296.