Fráveitumál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:52:48 (1483)

1998-12-02 13:52:48# 123. lþ. 30.4 fundur 258. mál: #A fráveitumál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:52]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Þar sem hér er um nokkuð ítarlegt svar að ræða og töluverðan talnaupplestur þá spara ég mér að lesa upp fyrirspurnirna.

Svo ég svari 1. lið þá var við setningu laganna sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til gert ráð fyrir að heildarkostnaður við fráveituframkvæmdir gæti numið 15--20 milljörðum kr. Þar af voru styrkhæfar framkvæmdir taldar alls um 10 milljarðar kr. Áætlað var að kostnaður einstakra sveitarfélaga vegna úrbóta á fráveitumálunum gæti numið 30--90 þús. kr. á íbúa.

Frekari sundurgreining á kostnaði sveitarfélaga liggur ekki fyrir öðruvísi en fram kemur í styrkumsóknum og heildaráætlunum einstakra sveitarfélaga sem sótt hafa um styrk vegna framkvæmdanna og sent ráðuneytinu. Þar kemur m.a. fram að hvað Reykjavík varðar er gert ráð fyrir 4 milljörðum kr., Akureyri 900 millj., Hafnarfjörður 350, Garðabær 250, Kópavogur 200, Borgarbyggð 150, Bessastaðahreppur 130 og Sandgerði 110. Sveitarfélög þessi eru öll með kostnaðaráætlun yfir 100 millj. og allt upp í 4 milljarða.

Blönduós, Eskifjörður og Rangárvallahreppur gera ráð fyrir 90 millj. kr., Seltjarnarnes 70 millj., Hólmavík 60, Hvolhreppur 50 og Neskaupstaður 30.

Ljóst er að hér er um miklar fjárhæðir að tefla, að vísu misháar en fyrir hin minni sveitarfélög geta þetta verið háar upphæðir. Auk þess hafa um 20 dreifbýlissveitarfélög og minni þéttbýliskjarnar fengið styrki vegna fráveituframkvæmda.

Þá er að svara 2. lið fyrirspurnarinnar. Markmiðið með setningu laga nr. 53/95, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, var að hvetja félögin til að ljúka brýnum úrbótum í fráveitumálum á næstu tíu árum. Miðað var við að stuðningur ríkisins næmi svipaðri upphæð og tekin væri í formi virðisaukaskatts. Miðað er við að styrkhæfar framkvæmdir á tímabilinu nemi um 10 milljörðum kr. Þá er stuðningurinn um 2 milljarðar og, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, gert ráð fyrir því að heildargreiðslur ríkissjóðs nemi þó ekki hærri upphæð en 200 millj. kr. á ári í þessi tíu ár.

Þá er spurt hvernig sveitarfélögunum gangi að standa straum af þessu. Sveitarfélög hafa heimild til innheimtu sérstaks holræsagjalds sem nemur 0,15% af fasteignamati allra fasteigna. Gjald þetta má hækka eða lækka tímabundið um 50% án sérstakrar heimildar. Sé gjaldtakan eðlileg verður ekki betur séð en að sveitarfélögin geti staðið straum af kostnaði vegna úrbóta í fráveitumálum sé litið yfir lengri tímabil. Þannig nemur holræsagjald í Reykjavík um 610 millj. kr. og á Akureyri um 100 millj. kr. á þessu ári. Sveitarfélög með hlutfallslega háan kostnað vegna fráveitumála munu líklega þurfa lengri tíma en tíu ár til að ljúka þessum úrbótum.

Í 4. lið er spurt um tekjur ríkissjóðs. Miðað við að kostnaður sveitarfélaganna við fráveituframkvæmdir á tímabilinu 1995--2005 verði 15--20 milljarðar eins og gert var ráð fyrir í upphafi --- það er þó ekki komið fram enn þá að nokkru marki en tímabilinu er heldur ekki líkt því lokið --- má gera ráð fyrir að virðisaukaskattstekjur ríkisins vegna fráveituframkvæmdanna geti numið 3--4 milljörðum kr. Aðrar tekjur ríkisins vegna fráveituframkvæmda eru t.d. þungaskattur, aðflutningsgjöld, árlegir skattar af vinnuvélum og skattar starfsmanna sem vinna við framkvæmdirnar. Ekki er fráleitt að ætla að hlutfall launa geti verið um 25% af þessum 15--20 milljörðum, eða 4--5 milljarðar kr. og umræddar skatttekjur ríkissjóðs um 1 milljarður kr. á ofangreindu tíu ára tímabili.

5. liður fyrirspurnarinnar fjallar um hvort eðlilegt sé að endurskoða lögin með tilliti til þessa kostnaðar og lengja hugsanlega framkvæmdatímann. Því er til að svara að fráveituframkvæmdir sveitarfélaganna hafa á undanförnum árum ekki verið meiri en raun ber vitni. Styrkgreiðslur ríkisins til sveitarfélaga hafa því verið verulega lægri en heimilt er að hámarki samkvæmt lögunum. Þær skiptast þannig að árið 1996 námu styrkgreiðslurnar 73 millj. kr., 1997 námu styrkgreiðslurnar 76 millj. kr. og í ár er áætlað að styrkgreiðslurnar nemi 165 millj. kr.

Ljóst er að stór sveitarfélög eins og Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður munu ljúka úrbótum í fráveitumálum á allra næstu árum. Önnur sveitarfélög eru misjafnlega vel á vegi stödd. Sum eru að vinna að framkvæmdum. Önnur eru skemmra á veg komin. Enn önnur hafa ekki hafið undirbúning og vita þar af leiðandi ekki hver kostnaður vegna úrbótanna verður í heildina.

Tímabundin styrkveiting ríkissjóðs vegna framkvæmda sveitarfélaganna í fráveitumálum var hugsuð sem hvatning til sveitarfélaganna til að flýta framkvæmdum og því er ekki talið tilefni til að draga úr þeirri hvatningu með því að leggja til að umræddur framkvæmdatími verði lengdur.