Fráveitumál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:59:47 (1485)

1998-12-02 13:59:47# 123. lþ. 30.4 fundur 258. mál: #A fráveitumál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi RA
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og ágætt yfirlit yfir þann vanda sem við er að etja á þessu sviði. Hann staðfesti það sem ég hafði ýjað að í upphafi fyrirspurnar minnar, að hér væri um að ræða kostnað upp á marga milljarða kr. Hann sagði að styrkhæfar framkvæmdir væru um 10 milljarðar kr. og áætlaður styrkur mundi því verða í kringum 2 milljarða.

[14:00]

Ráðherra benti hins vegar á það að sveitarfélögunum væri heimilt að leggja á sérstakt holræsagjald en dró í efa að ástæða væri til þess að lengja aðlögunartímann og benti á að sveitarfélögin hefðu ekki nýtt sér nema að hluta til þessar 200 millj. sem áttu að vera til ráðstöfunar á hverju ári, sum árin aðeins 76 millj.

Ég held að þetta sýni að sveitarfélögin ráða illa við þetta verkefni. Ég held að einmitt sú staðreynd að þau hafa ekki nýtt þessa upphæð sýni það að verkefnið er miklu stærra en svo að hægt sé að ætlast til þess að þau glími við það með ekki hærri styrkjum en þau fá. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að lögin verði endurskoðuð, að styrkupphæðirnar og framlag ríkisins verði hærra í prósentum talið og þau fái lengri aðlögunartíma en þau hafa nú. Ég heyrði það að við hæstv. ráðherra vorum ekki algerlega sammála um þetta atriði en ég held að ef menn skoða heildarumfang þessa máls og átta sig á vanda einstakra sveitarfélaga þá hljóti þeir að geta verið sammála mér um þessa niðurstöðu.