Lögskráning sjómanna

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:04:32 (1487)

1998-12-02 14:04:32# 123. lþ. 30.5 fundur 209. mál: #A lögskráning sjómanna# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:04]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í síðasta mánuði sat á þingi í fjarveru minni Lilja Rafney Magnúsdóttir. Hún bar fram tvær fyrirspurnir til hæstv. samgrh., þ.e. lagði þær fram en vannst ekki tími til að mæla fyrir þeim þannig að ég geri það í hennar stað.

Fyrri fyrirspurnin fjallar um lögskráningu sjómanna á bátum undir 12 brúttórúmlestum. Um lögskráningu sjómanna gilda lög nr. 43/1987. Samkvæmt þeim er skylt að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á íslenskum skipum sem eru 12 rúmlestir brúttó eða stærri. Jafnframt er ljóst að ekki er skylda til að lögskrá sjómenn á báta undir 12 brúttórúmlestum.

32. þing Alþýðusambands Vestfjarða, sem haldið var í nóvembermánuði 1998, ályktaði um þetta mál.

Í fyrsta lagi hafa sjómenn á bátum undir 12 brúttórúmlestum enga samningsbundna líf- og slysatryggingu af þessum sökum.

Í öðru lagi njóta þeir ekki sömu réttinda og þeir sjómenn sem skylt er að lögskrá.

Í þriðja lagi bendir þing Alþýðusambands Vestfjarða á að það er undir útgerð komið hvort gerður er ráðningarsamningur og hvort viðkomandi sjómaður sé tryggður eða ekki.

Fyrirspurnirnar sem fram eru bornar eru í fjórum tölusettum liðum og hljóða svo, með leyfi forseta:

,,1. Hver er afstaða ráðherra til þess að sjómenn á bátum undir 12 brúttórúmlestum verði lögskráðir og þar með slysa- og líftryggðir?

2. Telur ráðherra aðrar leiðir en lögskráningu mögulegar til að tryggja öllum sjómönnum sambærilega réttarstöðu og tryggingar?

3. Hefur ráðuneytið upplýsingar um fjölda starfandi sjómanna sem ekki eru lögskráðir?

4. Njóta sjómenn á smábátum undir 12 brúttórúmlestum, sem ekki eru lögskráðir og kjarasamningar ná ekki til, réttinda samkvæmt sjómannalögum?``