Samgöngur á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:13:23 (1490)

1998-12-02 14:13:23# 123. lþ. 30.6 fundur 210. mál: #A samgöngur á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:13]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Á þskj. 231 hefur verið borin fram fyrirspurn til samgrh. um samgöngur á Vestfjörðum. Fyrirspurnin er í tveimur liðum, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,1. Verða jarðgöng undir Hrafnseyrarheiði til tengingar norður- og suðurhluta Vestfjarða í endurskoðaðri vegáætlun?

2. Hvaða úrræði sér ráðherra til að bæta samgöngur í heild á Vestfjörðum?``

Ég vil bæta því við, herra forseti, málinu til frekari skýringar að samgöngum er þannig háttað á Vestfjörðum að þeir eru eitt af fáum svæðum landsins sem eru algerlega aðskilin stóran hluta ársins vegna fjallvega sem ekki eru færir yfir vetrarmánuðina. Nokkuð hefur áunnist á undanförnum árum og áratug og má þar helst nefna jarðgöng undir Breiðadals- og Botnsheiðar sem opnuðu norðanverða Vestfirði sem eina samgöngulega heild og hefur mikið munað um þá framkvæmd. Vestfirðinga þyrstir mjög í að knýja á um framhald á þessari braut og er mikill áhugi þar fyrir því að haldið verði áfram suður á bóginn og hugað að því að tengja saman norður- og suðurhluta Vestfjarða.

Ljóst er að til þess að svo megi verða þarf að grafa jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og beinist áhugi manna að því á þessu stigi málsins að rannsóknir verði gerðar á hugsanlegu jargangastæði og tekin ákvörðun um hvar það megi best verða og síðan að því loknu farið að huga að því að koma framkvæmdinni inn á vegáætlun.