Samgöngur á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:15:26 (1491)

1998-12-02 14:15:26# 123. lþ. 30.6 fundur 210. mál: #A samgöngur á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:15]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Spurt er: Verða jarðgöng undir Hrafnseyrarheiði til tengingar norður- og suðurhluta Vestfjarða í endurskoðaðri vegáætlun?

Í greinargerð með tillögu að langtímaáætlun um vegagerð sem lögð var fram á Alþingi á síðasta vetri segir svo um jarðgöng, með leyfi forseta:

,,Í þessari áætlun er ekki fjallað um framkvæmdir við jarðgöng. Ef til slíkra framkvæmda kemur á áætlunartímabilinu er gert ráð fyrir að það verði samkvæmt sérstakri ákvörðun stjórnvalda þar sem einnig verði tekin afstaða til fjármögnunar.``

Áætlunin nær yfir tímabilið frá 1999--2010 og var hún afgreidd á Alþingi sl. vor. Í henni er veitt nokkuð fé til jarðgangarannsókna.

Á undanförnum árum hafa verið fluttar nokkrar till. til þál. um stefnumótun og áætlunargerð um heilsárstengingu milli norður- og vestursvæðanna á Vestfjörðum. Í framhaldi af því var á síðasta vetri gerð lausleg rannsóknaráætlun um frumrannsóknir sem dugði þó til að meta mögulegar lausnir og gera tillögur um stefnumótun varðandi samgöngur milli svæðanna. Í sumar var efnt til loftmyndatöku af svæðinu milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar en það er fyrsta skref í rannsóknaráætluninni. Heildarkostnaður við rannsóknirnar var metinn á 15 millj. kr. og munu þær standa í nokkur ár. Hefur verið litið svo á að nægur tími væri til stefnu fyrir þessar rannsóknir, samanber svar við spurningu 2 um stefnumörkun í vegamálum á Vestfjörðum.

Þar er spurt: Hvaða úrræði sér ráðherra til að bæta samgöngur í heild á Vestfjörðum?

Í áðurnefndri langtímaáætlun er miðað við að lokið verði við þá stofnvegi sem tengja norðursvæðið við hringveginn, þ.e. veg um Ísafjarðardjúp, Steingrímsfjarðarheiði og svo annaðhvort veg suður Strandir eða yfir Tröllatunguheiði. Þá er einnig gert ráð fyrir að ljúka þeim stofnvegum sem tengja suðursvæðið við hringveginn, þ.e. Barðastrandarvegi og Vestfjarðavegi frá Flókalundi og austur um Barðastrandarsýslur. Þessi forgangsröðun verkefna er í samræmi við þá stefnu sem mótuð var á 8. áratugnum og hefur verið höfð að leiðarljósi síðan. Sú stefna fólst í því að leggja mesta áherslu á tengingu innan svæðanna fyrst. Síðan bæri að tengja svæðin við hringveginn, en tenging milli svæðanna komi síðast.

Ég vil, herra forseti, í framhaldi af þessu rifja það upp að með þeirri vegáætlun sem samþykkt var á síðasta þingi var í fyrsta skipti mörkuð sú stefna að setja tímamörk um það hvenær komið yrði bundnu slitlagi frá hringveginum á alla þéttbýlisstaði þar sem væru 200 íbúar eða fleiri. Með þessu eru auðvitað mörkuð þáttaskil í samgöngumálum, með því að hægt er að setja sér slíkt takmark, og þetta var raunar líka í fyrsta skipti sem langtímaáætlun í vegagerð var samþykkt á Alþingi. Öllum þingheimi var ljóst að þessum markmiðum væri ekki hægt að ná ef menn settu sér það einnig fyrir að reyna að tengja öll svæði innbyrðis, ég tala nú ekki um með jarðgöngum. Þetta var fyrsta skrefið og ég hygg að flestir þingmenn séu sammála um að það hafi verið mjög mikilsvert.

Það liggur síðan fyrir að reyna að gera sér grein fyrir því hver næstu skref verða og hlýtur það að koma til álita, auðvitað innan langtímaáætlunar, þegar vegáætlun verður endurskoðuð að ári og síðan þegar kemur til endurskoðunar á langtímaáætlun, hvaða verkefni og hvaða ný markmið menn vilja þá setja sér. Loks hlýtur það að koma til ákvörðunar þess þings sem kjörið verður á vori komanda hvort menn treysti sér til þess að ráðast í jarðgöng. Þá vil ég minna á að ýmsir hv. þm. hafa flutt þáltill. eða varpað fram fyrirspurnum um þau efni, raunar víðar en milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, á Austurlandi og fyrir vestan. Að mörgu er því að hyggja og óhjákvæmilegt fyrir næsta þing að marka sér stefnu í þeim efnum.