Samgöngur á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:20:17 (1492)

1998-12-02 14:20:17# 123. lþ. 30.6 fundur 210. mál: #A samgöngur á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:20]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að fagna þeirri umræðu sem hér fer fram um vegamál og samgöngumál á Vestfjörðum. Þetta er mjög þýðingarmikið mál og það kom á daginn í umræðu fyrir vestan að vaxandi áhugi er á því að efla þessi tengsl milli suður- og norðurhluta Vestfjarða og fyrir því eru margvísleg rök. Samskipti atvinnulífsins eru mikil á þessum svæðum og stjórnsýslan er að langmestu leyti staðsett á Ísafirði þannig að það er mjög eðlilegt að þessi krafa sé uppi af hálfu íbúa Vestfjarða.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er ekki gert ráð fyrir því í gildandi langtímaáætlun að ráðist verði í jarðgöng. Ef til þess kemur þá þarf um það sérstaka sjálfstæða ákvörðun og sérstaka viðbótarfjármögnun. Það er öllum ljóst og ég vil í því sambandi sérstaklega vekja athygli á því að gert er ráð fyrir því í þessari langtímaáætlun að unnið verði að rannsóknum á jarðgangakostum á þremur stöðum á landinu, þar á meðal á því að gera jarðgöng á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Það er mjög þýðingarmikið sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að búið er að setja upp rannsóknaráætlun í þessum efnum og byrjað á því að skoða þessa kosti því að það er mjög mikilvægt þegar að því kemur, sem verður vonandi innan skamms að við tökum pólitíska ákvörðun um frekari jarðgangagerð í landi, að allar upplýsingar liggi þá fyrir um möguleikana sem þar eru til staðar.