Verðmunur á leigulínum um ljósleiðara

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:33:50 (1497)

1998-12-02 14:33:50# 123. lþ. 30.7 fundur 202. mál: #A verðmunur á leigulínum um ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:33]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér er hreyft einhverju mesta hagsmunamáli landsbyggðarinnar og réttlætisins. Íslenska þjóðin á ljósleiðarann og það hlýtur að vera skýlaus krafa landsbyggðarinnar að hún hafi sama aðgang og fyrir sama verð að þessum ljósleiðara. Það er óásættanlegt að tala um byggðastefnu þegar það kostar þjónustufyrirtæki sem er staðsett úti á landsbyggðinni 700--800 þús. kr. meira að kaupa þjónustu af þessu fyrirtæki en ef það væri staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna þarf ekki að ræða málið lengi og ítarlega. Ef það er skoðun ríkisstjórnarinnar, sem ég ætla að sé, að hér beri að halda uppi byggðastefnu er engin leið jafnörugg til árangurs og að jafna aðganginn að ljósleiðaranum, að allir hafi sama aðgang. Það mun þýða að menn munu fremur staðsetja fyrirtæki sín úti á landsbyggðinni í framtíðinni.