Verðmunur á leigulínum um ljósleiðara

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:36:20 (1499)

1998-12-02 14:36:20# 123. lþ. 30.7 fundur 202. mál: #A verðmunur á leigulínum um ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér er hafin og þakka það frumkvæði sem hv. fyrirspyrjandi hefur sýnt með þessu og svör hæstv. ráðherra. Aðalatriði málsins er auðvitað það að hinn breytilegi kostnaður við að reka ljósleiðarakerfið er ekki kílómetratengdur, hann er ekki fjarlægðaháður, eins og hæstv. ráðherra komst áðan að orði. Það er aðalatriði málsins. Þetta kom mjög skýrlega fram þegar sú ákvörðun var tekin á Alþingi með breytingu á fjarskiptalögum að jafna símakostnaðinn. Sú ákvörðun ein og sér hafði mikið að segja fyrir hinar dreifðu byggðir. Til að mynda leiddi það í ljós að almennur símakostnaður á Vestfjörðum lækkaði við þessa aðgerð um 11% sem er gríðarlega mikið. Menn voru eiginlega að spara sér símareikning einn mánuð á ári við þessa ákvörðun eina og sér. Við sjáum af þessu að þetta skiptir mjög miklu máli enda gengur þetta sem rauður þráður í gegnum alla byggðaáætlunina sem hæstv. forsrh. hefur þegar mælt fyrir og þess vegna skiptir mjög miklu máli að okkur takist að stíga frekari skref í átt að því að jafna fjarskiptakostnaðinn sem er auðvitað mjög þýðingarmikið sem innlegg inn í byggðaumræðuna og mjög þýðingarmikið eins og hefur verið bent á svo hægt sé að staðsetja margs konar atvinnustarfsemi og fyrirtæki úti á landi sem eru nú í Reykjavík.