Verðmunur á leigulínum um ljósleiðara

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:41:10 (1502)

1998-12-02 14:41:10# 123. lþ. 30.7 fundur 202. mál: #A verðmunur á leigulínum um ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:41]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ekki er um það að ræða að ljósleiðari Landssímans sé óþrjótandi auðlind sem hægt er að ganga í eins og manni sýnist. Það er nú ekki svo og auðvitað verður að vera verð fyrir notkunina og ákveðnar skorður eru settar við því. Það sem er aðalatriðið er að fyrirtæki í upplýsingaiðnaði sem sett eru upp á landsbyggðinni eins og internetsfyrirtæki geta verið rekin á sambærilegu verði og í Reykjavík og það er ekki dýrara. Eina leiðin til að ganga úr skugga um það er að viðkomandi fyrirtæki biðji um tilboð, annars vegar frá Intís og hins vegar frá Landssímanum til að ganga úr skugga um hvort verð sé ekki hið sama. Ég vil jafnframt endurtaka það sem ég sagði áðan að á fyrri hluta næsta árs verður svokallað APM-net tekið í notkun sem hefur þá miklu kosti, eins og ég skil það, að viðkomandi notandi getur tryggt sér það rými sem hann óskar eftir í háhraðanetinu --- ég er nú ekki nógu góður í þessum tækniorðum --- eða á ljósleiðaranum þannig að engin hætta á að verða á því að það skerðist. Eins og nú standa sakir er umferðin um ljósleiðarann, um háhraðanetið þannig að gengið er út frá því að kannski í 1% tilvika kunni að verða einhver töf á afgreiðslu. Þó er reynt að passa upp á það, t.d. milli Reykjavíkur og Akureyrar, að til slíks geti alls ekki komið þannig að tæknimenn segja mér að enginn munur sé á gæðum háhraðanetsins og leigulínunnar þegar við erum að tala um internetsþjónustu og verðið er fullkomlega sambærilegt ef háhraðanetið er notað. En hitt, að vera stöðugt að tönnlast á því að landsbyggðin sitji við verra borð að þessu leyti, hefur valdið því að menn hafa verið hikandi við að setja slík fyrirtæki upp úti á landi og hef ég mjög nýlegt dæmi um það að villandi upplýsingum var haldið fram þannig að ég óskaði eftir því við viðkomandi aðila að þeir leituðu tilboða hjá internetsfyrirtækjum til þess að ganga úr skugga um hvað sé til boða.