Áætlanir í raforkumálum

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:00:45 (1508)

1998-12-02 15:00:45# 123. lþ. 30.13 fundur 200. mál: #A áætlanir í raforkumálum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:00]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 218 spyr hv. þm. Margrét Frímannsdóttir um áætlanir í raforkumálum. Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: ,,Hvaða svæði landsins eru enn án þriggja fasa rafmagns? Hver er staðan hjá Rafmagnsveitum ríkisins í hverju umdæmi fyrir sig?``

Í sveitum landsins er meiri hluti íbúa eingöngu með aðgang að einfasa rafmagni. Það er ekki bundið við ákveðin svæði eða landshluta heldur er kerfið þannig uppbyggt að út frá aðveitustöðvum liggja þriggja fasa meginlínur og strengir um þéttbýlustu svæðin. Þeir sem búa í námunda við slíkar þriggja fasa dreifilínur hafa margir hverjir fengið þriggja fasa rafmagn.

Til að meta aðgengi notenda Rafmagnsveitna ríkisins eftir landshlutum er best að líta á fjölda þriggja fasa spennistöðva. Hlutfall þriggja fasa spennistöðva í einstökum umdæmum Rafmagnsveitna ríkisins eru sem hér segir:

Í Kjós 5,6%, á Vesturlandi 12,8%, á Norðurlandi vestra 11,3%, á Norðurlandi eystra 25,6%, á Austurlandi 7,4% og Suðurlandi 18,2%. Að meðaltali eru 15,2% spennistöðva í sveitum þriggja fasa og í þriggja fasa línu. 11,7% spennistöðva eru einfasa en staðsettar í þriggja fasa línum þannig að aðeins þarf að skipta um spennistöð óski notendur eftir þriggja fasa rafmagni. Hins vegar eru 3.280 spennistöðvar, eða 72,6% einfasa í einfasa línum.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hve miklu fé hefur verið veitt til þessa verkefnis á síðustu fimm árum og hve stórum áfanga hafa þær fjárveitingar skilað, sundurliðað eftir árum.``

Á undanförnum fimm árum hefur á vegum Rafmagnsveitna ríkisins verið varið um 790 millj. kr. til styrkingar og endurnýjunar á rafdreifikerfinu til sveita. Auk þess hafa notendur lagt fram 65 millj. kr. í heimtaugagjöld. Á árinu 1995 gerðu ríki og Rafmagnsveitur ríkisins samning með sér sem tók m.a. til styrkingar og endurnýjunar á dreifikerfi í sveitum. Í ár verður 123 millj. kr. varið til þessa verkefnis en í frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 er talan 150 millj. Framlagið fer því hækkandi. Ekki hafa fyrr verið settir jafnmiklir fjármunir á svo skömmum tíma til styrkingar og endurnýjunar á dreifikerfi í sveitum.

Stærstum hluta þessa fjármagns hefur verið varið til lagningar á 11 og 19 kw. jarðstrengjum, alls um 350 km. Þessir strengir eru nær eingöngu þriggja fasa og auka möguleika á þriggja fasa rafmagni þar sem þeir eru lagðir. Hafa ber í huga að við val á verkefnum til strenglagna er í fyrsta lagi horft til þess að raforkukerfið hafi næga flutningsgetu. Í öðru lagi er horft til þess hvar bilanir verða helst vegna ísingar, veðuráraunar og hrörnunar. Í þriðja lagi er leitast við að auka þrífösun þar sem álag er mest. Með því fjármagni sem verið hefur til ráðstöfunar hefur orðið að leggja megináherslu á tvo fyrri liðina.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Hver er áætluð heildarfjárþörf til þess að ljúka verkefninu?``

Ef þrífasa á þá 4.500 km af dreifikerfinu hjá Rafmagnsveitum ríkisins sem eru einfasa þarf að setja upp 3.810 þriggja fasa dreifistöðvar hjá þeim notendum sem ekki hafa möguleika á þriggja fasa rafmagni í dag. Þar er um verulega fjármuni að ræða. Samkvæmt upplýsingum Rafmagnsveitna ríkisins er kostnaður vegna þessa verkefnis lauslega metinn á um 8,6 milljarða kr. Hann skiptist þannig að 6,7 milljarðar eru vegna lína og 1,9 milljarðar vegna spennistöðva.

Í fjórða lagi spyr hv. þm.: ,,Hefur iðnaðarráðuneytið mótað stefnu í þessum málum og sett ákveðin tímamörk? Ef svo er, hver er stefnan og hvenær er áætlað að verkinu ljúki? Hverjar eru áætlaðar árlegar fjárveitingar til þess?``

Þann 1. nóvember 1990 sendi orkuráð frá sér ályktun um styrkingu rafdreifikerfisins á Íslandi. Gerði hún ráð fyrir að á árunum 1991--1997 yrði lokið við það sem eftir er af styrkingu rafdreifikerfa í sveitum landsins svo þau gætu borið það álag sem á þeim yrði á næstu árum. Með þeim hætti yrði unnt að veita raforkunotendum í strjálbýli eins góða þjónustu og nú er veitt í þéttbýli eftir því sem yfirleitt er mögulegt vegna kostnaðar.

Í ályktun ráðsins kemur fram að heildarkostnaður við styrkingu rafdreifikerfisins í sveitum næmi rúmum milljarði kr. Í forsendum þeirrar ályktunar er gert ráð fyrir að ekki skuli þrífasa línur nema þar sem það er nauðsynlegt af öðrum ástæðum en þeirri einni að útvega þriggja fasa rafmagn. Þannig skuli beita þrífösun til að auka flutningsgetu og jafna álag á fasa. Þannig skuli koma upp þrífasa línum til að viðhalda hringtengingarmöguleikum þar sem álagsþéttleiki er það mikill að heildarkostnaður notenda og rafveitu verði lægri með þriggja fasa kerfi. Skal þó miða við þrífösun á aðallínum enda þótt þess gerist ekki þörf vegna spennu. Þrífösun á álmum og aðallínum með litlu álagi fellur hins vegar utan áætlunarinnar. Þriggja fasa rafmagn er yfirleitt ekki lagt í íbúðir í þéttbýli. Þá er yfirleitt ekki þörf á því í sveitum. Þess er ekki þörf vegna rafhitunar og almennra búnota því að unnt er að fá tæki og búnað sem notað getur einfasa rafmagn.

Nú er að hefjast endurskoðun á rekstrarsamningi Rafmagnsveitna ríkisins, iðnrn. og fjmrn. og við þá endurskoðun gefst tækifæri á að leggja línurnar í rekstri og fjárfestingu fyrirtækisins fyrir næstu ár.