Áætlanir í raforkumálum

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:06:15 (1509)

1998-12-02 15:06:15# 123. lþ. 30.13 fundur 200. mál: #A áætlanir í raforkumálum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það sem upp úr stendur er að samtímis því að hæstv. ríkisstjórn er að hvetja til nýsköpunar í atvinnulífi í dreifbýlinu og í farvatninu eru tillögur um enn frekari samdrátt í landbúnaði, þá erum við með á bilinu 4.500--5.000 km langar línur sem eftir á að endurnýja þar sem um einfösun er að ræða en ekki þrífösun. Um 123 millj. kr. eiga að fara í þetta verkefni í ár og 150 á næsta ári. Það segir okkur að hægt yrði að leggja eða endurnýja um 300 km. Ef við héldum sama framkvæmdahraða og verið hefur þá mun taka næstu 40--50 ár að leysa verkefnið. Þessi samningur sem gerður hefur verið er aðeins um að hluti af þeim arðgreiðslum sem Rarik er gert að greiða í ríkissjóð á að renna í þetta verkefni, það er ekki öll arðgreiðslan. Meðan þannig er haldið á málum stöndum við ósköp einfaldlega frammi fyrir því að verði ekki farið í sérstakt átak á þessu sviði, þá verðum við næstu 40 árin að koma þessum grunnþætti fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni í lag. Meðan við getum ekki boðið þeim sem vilja taka þátt í nýsköpun í atvinnulífi, t.d. ferðaþjónustu í dreifbýlinu, þriggja fasa rafmagn eru það nánast orðin tóm að tala um fjarvinnslu, hagræðingu, ný atvinnutækifæri úti á landi o.s.frv. Ég held að við hljótum að leggja sérstaka áherslu á að frá þessum málum verði gengið ef ríkisstjórnin ætlar að breyta rekstrarfyrirkomulagi orkufyrirtækjanna í landinu. Það verður að liggja fyrir áætlun í þessum efnum áður.