Kynferðislegt ofbeldi gagnvart þroskaheftum

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:13:17 (1512)

1998-12-02 15:13:17# 123. lþ. 30.14 fundur 187. mál: #A kynferðislegt ofbeldi gagnvart þroskaheftum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:13]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Spurt er um helstu niðurstöður nefndar sem hér var til umræðu. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr samantekt starfshópsins, með leyfi forseta:

,,Hérlendis er lítið vitað um tíðni kynferðislegs ofbeldis gegn þroskaheftum. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á því sviði. Almennt er talið að lögregluskýrslur segi ekki alla söguna um umfang þessara brota þar sem fjölmargar rannsóknir benda til þess að aðeins lítill hluti kynferðisbrota sé kærður til lögreglu. Að auki skráir lögregla ekki með skipulegum hætti andlegan þroska brotaþola sem þangað leita með kærur.

Ítarlegustu upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi gegn þroskaheftum er sennilega að finna hjá neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur. 300 einstaklingar hafa leitað til neyðarmóttökunnar á þeim fjórum árum sem hún hefur verið starfrækt og þar af voru 16 þroskaheftir. Þá hefur komið fram í viðtölum við sérfræðinga sem starfað hafa með þroskaheftum og fulltrúa hagsmunasamtaka þroskahefta að algengara sé en marga gruni að þroskaheftir verði fyrir kynferðislegu ofbeldi. Til að draga úr tíðni kynferðislegs ofbeldis gegn þroskaheftum þarf að framkvæma markvissar forvarnaaðgerðir. Forvarnir ættu að beinast gegn þremur hópum, þ.e. þroskaheftum sjálfum, fjölskyldum þroskaheftra og starfsmönnum sem vinna með fólki með fötlun.``

Önnur spurningin lýtur að því hvort ég hafi hugsað mér að gera niðurstöður skýrslunnar opinberar. Við höfum ekki sent fjölmiðlum þessa skýrslu. Við í ráðuneytinu teljum að hér þurfi að fara með mikilli gát þar sem um er að ræða viðkvæm mál sem hætta er á að verði mistúlkuð og leiði til alhæfinga sem virkað geti niðurlægjandi fyrir þennan hóp. Jafnframt þarf að gæta þess að ekki sé hægt að rekja upplýsingar. Það er auðvelt að setja upplýsingarnar þannig fram að virkað geti niðurlægjandi fyrir þroskahefta.

Skýrslan er að sjálfsögðu opinbert plagg í skilningi upplýsingalaga. Við höfum látið hana úr ráðuneytinu til fagfólks og þeirra sem hafa óskað. Allmargir hafa hana í höndum. Við höfum ekki tekið ákvarðanir um dreifingu á skýrslunni en hún er til í ráðuneytinu og verður afhent þar ef menn óska.

Spurt var hvort niðurstöður nefndarinnar kölluðu á aðgerðir af hálfu yfirvalda. Það gera þær sannarlega. Nefndin setti fram tillögur til úrbóta í sex liðum:

Í fyrsta lagi að þroskaheftum verði boðin fræðsla um kynferði sitt og kynhlutverk.

Í öðru lagi að ungu þroskaheftu fólki verði boðin fræðsla um kynlíf og barneignir.

Í þriðja lagi að aukin verði fræðsla fyrir foreldra og aðstandendur um kynlíf þroskaheftra.

Í fjórða lagi að starfsfólk og aðrir þeir sem veita þroskaheftum þjónustu búi yfir þekkingu og færni til að bregðast við kynferðislegu ofbeldi gegn þroskaheftum.

Það sem við höfum gert í þessu máli er að ég hef haft samband við Þroskahjálp. Þroskahjálp hefur látið vinna efni sem ég held að sé það besta fáanlega í þessu efni. Í undirbúningi er að gera samning við Þroskahjálp um að annast dreifingu og útgáfu þessa fræðsluefnis. Að sjálfsögðu erum við tilbúnir að leggja peninga í það verkefni.

Fimmta tillagan er að framkvæmd verði heildstæð rannsókn á kynferðislegu ofbeldi gegn þroskaheftum á Íslandi. Sú rannsókn hefur ekki verið sett í gang.

Sjötta tillagan er að þroskaheftir þolendur kynferðisbrota eigi lögvarinn rétt á aðstoð löglærðs talsmanns.

Í dómsmrn. er í undirbúningi frv. um réttindagæslu og það mundi væntanlega gagnast þroskaheftum ekki síður en öðrum. Ég hygg að það frv. komi til afgreiðslu á Alþingi innan örfárra vikna og ég vænti þess að þar verði tekið á þeim þætti.