Framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynja

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:32:04 (1518)

1998-12-02 15:32:04# 123. lþ. 30.15 fundur 263. mál: #A framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynja# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:32]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir það hjá hv. fyrirspyrjanda að æskilegra hefði verið að vinna hraðar. Í ráðuneytinu er hins vegar mikið vinnuálag og mörgu að sinna. Þetta verkefni má þó að sjálfsögðu ekki sitja á hakanum. Stefnan er ítarlegar mörkuð í lögunum en í framkvæmdaáætluninni þannig að það er meiri styrkur og þungi af því að fá það lögfest en sett fram með ályktun.

Varðandi skipun nefndarinnar sem skipa átti fyrir 1. maí í vor og ekki hefur verið skipuð enn er því til að svara að í fyrsta lagi var framkvæmdaáætlunin ekki afgreidd fyrir 1. maí. Sú dagsetning var því orðin úrelt þegar Alþingi ályktaði um málið. Þetta mun þó gert á næstunni.

Nú vita forstöðumenn ríkisstofnana að þeir eiga að virða jafnrétti og ef þeir gera það ekki eru þeir að brjóta lög. Hins vegar er það kannski ómaksins vert, og það verður gert, að skrifa til þeirra og minna þá á þessa skyldu. Ég vona nú reyndar að þeir muni allir eftir henni.