Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 10:37:28 (1531)

1998-12-03 10:37:28# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[10:37]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál á sér langan aðdraganda og það var raunar Alþingi sem tók þetta mál upp fyrst í fjárln. með því að leggja til að verulegu fé yrði varið ár eftir ár til þess að þróa sjálfvirkt tilkynningarkerfi fyrir íslensk fiskiskip. Auðvitað var hugmyndin á bak við þetta á Alþingi á þeim tíma alveg óháð því hvernig tækninni fleygði fram í fjarskiptum almennt.

Eins og ítarlega hefur verið rætt á Alþingi og hv. þingmanni er kunnugt hefur störfum í strandstöðvum fækkað og strandstöðvum fækkað vegna nýrrar tækni. Eins og nú standa sakir eru þær á þrem stöðum, þ.e. Vestmannaeyjum, Reykjavík og Siglufirði, og eins og ég hygg að áður hafi komið fram er til athugunar hvort hægt verði að byggja upp aðra starfsemi á Siglufirði í staðinn fyrir strandstöðina þar eða hvernig við skuli brugðist. Verulegur halli hefur verið á þeim rekstri og hv. þm. er raunar líka kunnugt að ný tækni í fjarskiptum hefur mjög breytt starfsemi símans frá því að hún hófst á sínum tíma hér á landi.