Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 10:39:17 (1532)

1998-12-03 10:39:17# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[10:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er óþarfi hjá hæstv. ráðherra að taka það illa upp þó ég spyrji um þetta. Ég fagna því auðvitað að tækninni fleygi fram og að hægt er að beita henni einmitt í öryggisskyni varðandi tilkynningarskylduna. Ég þakka ráðherra fyrir svörin en gagnrýni það að ekki skyldi koma fram í máli ráðherrans hvaða aðrar breytingar þetta hefði í för með sér því að ég tel að það þyrfti að koma fram um leið og mælt er fyrir málinu að þetta hefur þær afleiðingar að strandstöðvum fækkar. Það er kannski aðeins eðli tækninnar, en það þarf að koma fram í þessari umræðu.

Reyndar fagna ég því að þetta mál skuli hafa komist svo langt því maður tekur eftir því, og það kom reyndar fram í máli hæstv. ráðherra, að Alþingi hefur verið að veita fé til þessa verks frá 1983 og því er vissulega tímabært að þessi lagabreyting verði gerð.

Ég meinti ekkert illt með því þó að ég spyrði ráðherrann út í það hversu mikið starfsemi strandstöðvanna mundi breytast við þessa lagasetningu.