Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 10:42:09 (1534)

1998-12-03 10:42:09# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[10:42]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég fagna því að frv. skuli vera lagt fram sem kveður á um að sjálfvirk tilkynningarskylda skuli vera í öllum skipum, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er öryggismál eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra og mun auka öryggi sæfarenda og auðvelda eftirlit með því hvar skip eru stödd og finna væntanlega skip ef slíks gerist þörf. Þannig eykst öryggi allra og áhyggjur aðstandenda sjómanna ættu að verða minni en fram að þessu.

Einn þáttur hlýtur að koma fram í þessari umræðu þó svo að menn fagni þessu frv. og hann er sá að áfram verður að sinna öryggisþáttum í landi sem snúa að handvirku eftirliti, þ.e. neyðarköllum og öryggisþjónustu. Sá þáttur verður alltaf að vera hjá loftskeytastöðinni hvar svo sem útstöðvar hennar eru staðsettar. Eins og komið hefur lítillega fram í þessari umræðu þá hefur strandstöðvum fækkað um tvær og það hefur komið fram að yfirmenn Landssímans gera ráð fyrir því jafnvel að strandstöðvarnar verði lagðar af að meira og minna leyti. Það er út af fyrir sig ekki nógu gott að slíkar yfirlýsingar hafi komið fram, enda getur sjálfvirk tilkynningarskylda aldrei komið í staðinn fyrir öryggisvaktina.

Þetta er spurning um kunnugleika á staðháttum. Strandstöðvarnar hafa sinnt því hlutverki að aðstoða við björgun skipa og þegar leitarsvæði eða þjónustusvæði strandstöðvanna eru orðin svona stór þá nýtist ekki lengur sú sérþekking sem áður var til staðar þegar styttra var á milli strandstöðvanna en nú.

Það sem einnig hefur gerst núna með strandstöðvarnar er að vaktmönnum hefur fækkað verulega og mun færri eru á vöktum en var. Það er að meginhluta til gert, eftir því sem mér er sagt, vegna þess að eftirlitið verður auðveldara með sjálfvirkri tilkynningarskyldu.

Ég vil einungis með þessari ræðu minni vara við því að gengið sé of skart í að fækka stöðvunum og að fækka starfsmönnum þeirra strandstöðva sem eftir eru því að þær koma til með að gæta öryggis sæfarenda áfram þrátt fyrir það að sjálfvirkur búnaður sé kominn um borð í öll skip þannig að hægt verði að fylgjast með þeim.

Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að í samgn. þar sem ég á sæti verði þessi mál tekin til sérstakrar skoðunar og í beinu samhengi. Ég hef rætt þetta við hæstv. samgrh. og hann tekur að sjálfsögðu vel í alla umfjöllun sem kemur sér vel og er mikilvæg fyrir íslenska sæfarendur.