Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 10:50:19 (1539)

1998-12-03 10:50:19# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[10:50]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil nálgast þetta mál frá öðru sjónarhorni en hér hefur verið gert undanfarnar mínútur. Ég fagna frv. mjög. Fyrir um tveimur árum síðan skipaði hæstv. samgrh. nefnd alþingismanna til þess að fara yfir ákvæði laga og reglugerða um björgunarmál eða málefni sem snúa að öryggi sjómanna.

Í þeirri umræðu kom það oft fram og þess sáust glögg merki í skýrslu sjóslysanefndar hve alvarlegt ástand er oft á miðunum hvað áhrærir þann öryggisþátt sem sjómenn sjálfir eiga að gæta hvað best, þ.e. hversu lítið er hlustað á neyðarbylgjur og hve illa er að þeim málum staðið á sumum skipum að jafnvel klukkustundum saman er ekki hlustað á alþjóðaneyðarbylgjuna eða þær neyðarbylgjur sem almennt eru viðurkenndar hjá sjómönnum. Þess vegna fagna ég þessu frv. og tel að hér sé stigið stórt og mikið skref í öryggismálum sjómanna.

Hvað áhrærir hins vegar strandstöðvarnar þá er það tímanna tákn, því tækninni fleygir svo fram, að ekki eru mörg ár síðan skip stödd í Ísafjarðardjúpi náðu ekki sambandi við Ísafjarðarradíó. Með tilkomu gervihnatta og auknu sambandi um þá er umhverfið orðið allt annað hvað varðar fjarskipti milli skipa og lands. Sú tækni er öll í hraðri framþróun og þetta er hluti af því máli.

Ég endurtek að í vinnu þessarar öryggisnefndarinnar sem hæstv. ráðherra skipaði fimm alþingismenn í, kom mjög oft til umræðu það ástand sem ríkir á miðunum þegar jafnvel sjómenn láta veðurfregnir fara fram hjá sér. Það er með ólíkindum hve hægt er að afla mikilla upplýsinga í gegnum þetta upplýsingakerfi, þetta sjálfvirka tilkynningarkerfi. Þar er veðurspá, farsími, tölvupóstur o.s.frv. Hér er því stigið stórt og mikið spor í framfaraátt og ber vissulega að fagna því.

Þegar þetta mál er hins vegar skoðað má segja að ekki sé mjög kostnaðarsamt fyrir útgerðir að standa að rekstri þessa öryggiskerfis. Það kemur fram að hver útgerð á að borga um 5 þúsund kr. á ári fyrir þetta kerfi. Í athugasemdum með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt samkomulaginu var Slysavarnafélaginu falið að annast áfram rekstur tilkynningarskyldunnar og byggja upp og reka eftirlitsstöð sem gæti tekið á móti sjálfvirkum tilkynningum auk handvirkra tilkynninga eins og áður. Póst- og símamálastofnun var aftur á móti falið að byggja upp og reka fjarskiptakerfi í landi. Með samkomulaginu var sömu aðilum og séð höfðu um og rekið tilkynningarkerfi íslenskra skipa í tæp tuttugu ár falið að sjálfvirknivæða það.``

Hins vegar á að koma upp, eða eins og segir hér, með leyfi forseta:

,,Í samningnum er kveðið á um að Landssími Íslands hf. taki að sér að setja upp og starfrækja móttöku- og dreifileiðir fyrir sjálfvirkt tilkynningarkerfi á landi að undanskildri eftirlitsmiðstöð sem Slysavarnafélag Íslands muni fjármagna og reka. Í þessu felst uppbygging og rekstur á fjarskiptastjóra, átta landstöðvum, 25 endurvarpsstöðvum og boðleiðum þar á milli auk boðleiða til stjórnstöðvar Slysavarnafélagsins.``

Hér er ekkert smámál á ferðinni og ég tel að með þessu sé nokkuð vel girt fyrir að boðleiðir muni ekki virka þannig að þetta kerfi á vissulega að þjóna vel þeim öryggisþætti sem í mörg ár hefur verið talað um. Og ég held að það sé gæfuspor okkar Íslendinga að vera einna fremstir í flokki í þessu máli. Íslendingar stigu frumspor varðandi öryggisþátt sjómanna með tilkynningarskyldukerfinu sem vakti athygli víða um heim og hefur margfalt sannað sig.

Jafnframt þessu er talað um að handvirkt tilkynningarskyldukerfi verði rekið í allt að þrjú ár samhliða sjálfvirka kerfinu.

En mig langaði til að spyrja ráðherra um eitt. Hér er rakinn kostnaður ríkisins vegna þessara sjálfvirku tilkynningarkerfa og einnig hve hlutdeild ríkisins mun lækka á næstu árum, og er það vel. Hins vegar er talað um að veita styrk að upphæð 40 þúsund kr. úr ríkissjóði til skipa sem þurfa að kaupa búnað vegna VHF-fjarskipta og vegna sjálfvirka tilkynningarkerfisins. Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra hver væri áætlaður kostnaður ríkisins við að koma þessum búnaði um borð í skipin og hvað mætti ætla að hvert tæki kostaði í skip, hvort mismunandi verð sé á þessum tækjum eftir stærð skipa eða hvort kostnaðurinn sé nánast hinn sami fyrir 5 tonna bát og 300 tonna togara?