Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 11:07:50 (1542)

1998-12-03 11:07:50# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[11:07]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mig langaði vegna þeirra orðaskipta sem hér hafa átt sér stað að reifa þetta mál aðeins betur. Eins og ég hef ítrekað sagt við þessa umræðu lít ég svo á að sjálfvirk tilkynningarskylda sé mjög til bóta. Ég vil ítreka það hér í fjórða sinn. Hún getur aukið öryggi skipa verulega þegar litið er á þessa þætti saman, þ.e. handvirkt eftirlit og sjálfvirka tilkynningarskyldu í gegnum sérstakt tæki sem á að vera um borð í hverju skipi. Auðvitað verður líka að fylgjast vel með því að slíkt tæki sé um borð í hverju skipi og sé í lagi. Menn mega ekki varpa frá sér þeirri ábyrgð að halda uppi sama öryggi og fram að þessu.

Ég held að fram að þessu hafi yfirleitt eða í yfir 90% tilvika verið farið vel með tilkynningarskyldu skipa og sjómenn almennt verið mjög meðvitaðir um að nauðsynleg hafi verið, þeirra vegna og annarra, að tilkynna skipin bæði út og inn. Auðvitað hafa komið upp ýmis tilvik í sambandi við kvótafyrirkomulag eða stjórn fiskveiða og slíkt sem orðið hefur til þess að menn hafa sleppt því að tilkynna sig, þ.e. af öðrum ástæðum en öryggisástæðum.

Ef við lítum á strandstöðvarnar sjálfar, það hefur mælst illa fyrir að ræða það hér þó nauðsynlegt sé, þá hafa þær dregið verulega úr þjónustu sinni þó hið sjálfvirka tilkynningarkerfi sé ekki komið í gagnið. Eins og fram hefur komið í umræðu á þinginu áður er búið að loka tveimur stöðvum. Í þeim stöðvum sem enn eru starfræktar hefur starfsmönnum fækkað og eru í dag 13 starfsmenn í stöðvunum öllum en voru 20 áður.

Samt hefur ekkert breyst í starfi og eðli þjónustu þessara strandstöðva frá því sem áður var. Mótteknum skilaboðum hefur ekki fækkað og umsvif stöðvanna hafa ekki minnkað þannig að í raun hefði ekkert átt að leiða til þess að þessum stöðvum eða starfsmönnum þeirra fækkaði. Þess vegna veltir maður því fyrir sér hver ástæðan sé og hvort einhver ástæða sé til að loka þessum stöðvum alfarið eftir þrjú ár.

Mig langaði að spyrja hæstv. samgrh. að því hvort meiningin með þessu ákvæði væri að handvirkt kerfi verði rekið samhliða í þrjú ár og eftir þau þrjú ár verði reynslan af því skoðuð eða verður þar með settur punktur og og stöðvunum lokað.

Í dag er það þannig í strandstöðvunum sem sinna þessum skyldum, að taka á móti tilkynningum og þjóna skipum, að hver starfsmaður er með 69 viðtæki til að annast á nóttunni. Ef við lítum hins vegar á flug eru 4--6 viðtæki á hvern starfsmann þannig að álagið á starfsmenn strandstöðva eða loftskeytastöðvarinnar í dag er gríðarlega mikið og mun meira en á þá sem sinna flugi. Maður veltir því fyrir sér hvort einhver ástæða sé fyrir þessum mun. Það má eflaust kanna það frekar í nefndinni en ég tel ríka ástæðu til að fylgjast vel með því að öll skip hafi þessi viðtæki og senditæki um borð þannig að sjálfvirka tilkynningarskyldan komist í gagnið sem allra fyrst.

Það mun kosta um 150--200 þús. kr. að kaupa tæki um borð í hvert einasta skip. Viðkomandi smábátaútgerðarmenn þurfa að leggja út verulega upphæð til að komast í þetta samband. Á þessum þremur árum er væntanlega gert ráð fyrir því að skip kaupi sér viðtækin fyrir þennan pening en þetta er dýrt. Það er ekki hægt að neita því að þetta er dýrt og það mun geta dregið eitthvað úr því að menn kaupi sér slík tæki en því þarf að sjálfsögðu að fylgja eftir.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta, herra forseti en vil að endingu vonast til að við náum að skoða málið sérlega vel í nefndinni og að málið, sem ég veit að búið er að vera lengi í vinnslu og er mikið áhugamál okkar allra sem höfum áhuga á því að auka öryggi sjómanna, verði til að þetta öryggi aukist enn og allir verði sáttir við frv. það sem endanlega verður samþykkt á þinginu í vetur.