Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 11:27:59 (1547)

1998-12-03 11:27:59# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[11:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Enginn er að gefa í skyn að þetta mál dragi úr öryggi sjómanna eða þjónustu við þá. Það hefur enginn gert það í þessari umræðu, þetta er alger misskilningur hjá hæstv. ráðherra þannig að hann ætti að geta tekið gleði sína á ný og látið af því að vera stúrinn því að þetta er alger misskilningur.

Hv. 18. þm. Reykv. sem hér stendur og ég efast ekki um að hæstv. ráðherra man hvað heitir, þakkar gott boð, bæði til Slysavarnafélagsins og í loftskeytastöðina. En það má kannski geta þess að hv. samgn. er búin að fara í heimsókn á báða staðina á þessu kjörtímabili. En ég efast ekki um að það muni verða lærdómsríkt fyrir okkur að koma þangað aftur. Það var mjög merkilegt að sjá hve starfsemi Slysavarnafélagsins er orðin öflug og tækjabúnaður sem þar er kominn í gagnið. En svo sannarlega þigg ég boð að fara þangað með hv. þm. Kristjáni Pálssyni og hæstv. ráðherra. En að nokkur maður hafi gefið í skyn að með þessu máli væri verið að draga úr öryggi eða þjónustu við sjómenn er bara eins og hver önnur firra.