Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 11:32:38 (1549)

1998-12-03 11:32:38# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[11:32]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt hefur Slysavarnafélagið farið svo með þær upplýsingar sem það hefur haft að ekki hefur vakið neina tortryggni hjá sjómönnum. Má vera að af þeim sökum hafi ekki verið tekin samtímis afstaða til þess álitamáls sem hér kom upp. Ég vil aðeins rifja upp að í lögum tilkynningarskyldu íslenskra skipa segir:

,,Öll íslensk skip, sem búin eru talstöð, önnur en varðskip, skulu tilkynna:

a. brottför skipsins úr höfn;

b. staðsetningu skipsins a.m.k. einu sinni á sólarhring, fiskiskip samkvæmt ákvörðun eftirlitsmiðstöðvar og farþegaskip eftir aðstæðum;

c. komu skipsins í höfn.``

Þetta ber að gera nú. Hér er gert ráð fyrir að tíðni verði miklu meiri, og eins og ég hygg að hv. þm. sé kunnugt um er gert ráð fyrir í sjálfvirku tilkynningarskyldunni að tilkynningar berist á 15 mínútna fresti og getur verið miklu oftar ef þannig viðrar eða ef ástæða er til.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Mér finnst alveg sjálfsagt að þetta mál sé athugað til þrautar og mín skoðun er hin sama og hv. þm. að best fari á því að þær upplýsingar sem liggja hjá Slysavarnafélaginu og varða öryggi sjófarenda berist ekki annað.