Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 11:34:22 (1550)

1998-12-03 11:34:22# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[11:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þessi svör og ég fagna því að um þetta mál er ekki ástæða til að ætla að neinar deilur verði og menn eru sammála um hvað hlýtur að hafa algjöran forgang og ráða í raun og veru. Það er að tryggja óvefengjanlega meðferð þessara upplýsinga, geymslu, varðveislu þeirra og/eða förgun, sem kannski er í raun það sem málið snýst um, þ.e. að þessum upplýsingum verði bara eytt jafnóðum og þær hafa misst gildi sitt.

En það sem menn verða að hafa hér í huga er að nú verður um rafræna skráningu upplýsinganna að ræða. Og þá erum við komin inn í allt annan heim, við erum komin inn í þann heim að út af fyrir sig væru geymslumöguleikarnir ótakmarkaðir og upplýsingar gætu legið fyrir á einum diski um feril allra íslenskra skipa innan landhelginnar árum saman ef því væri að skipta, geri ég ráð fyrir. Þá er náttúrlega líka orðin spurning hvort aðilar eins og tölvunefnd og aðrir slíkir komi ekki við sögu og þessi upplýsingameðferð verði að uppfylla ekki bara slík ákvæði heldur og önnur sem við kynnum að vilja setja í þessu tilviki og væru jafnvel strangari, ákvæði eins og þau að upplýsingum væri eytt með kerfisbundnum hætti eða þeim fargað um leið og það hefði ekki lengur gildi út frá öryggissjónarmiðum að geyma þær.

Mönnum gengur oft illa að átta sig á þessari nýju öld þar sem hægt er að geyma mér liggur við að segja, með þínu leyfi, herra forseti, allan fjandann alveg endalaust. Það kemur í ljós t.d. að hægt er að geyma á smákubbum eða diskum upplýsingar um hvar öll heimsbyggðin hefur hringt í sína GSM-síma og hvar hún hefur verið, og eru það nú upplýsingar sem ýmsum kynni að þykja óheppilegt að verið væri að þvælast með út um dal og hól, svo sem eins og í hvern menn hafi verið að hringja og hvar og hvenær úr gemsum sínum (Gripið fram í: Og hvar staddir.) og hvar staddir. Og er það þó smámál borið saman við hitt, sem hér er undir, að við stöndum þannig að málum að það verði til farsældar.