Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 11:39:10 (1552)

1998-12-03 11:39:10# 123. lþ. 32.2 fundur 281. mál: #A leigubifreiðar# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[11:39]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Með frv. þessu er lögð til breyting á skilgreiningu núgildandi laga á óflekkuðu mannorði í lögunum um leigubifreiðar.

Eins og þingheimi er kunnugt var samþykkt breyting á þessum lögum á liðnu þingi. Var þar m.a. vikið að skilgreiningu á þessu hugtaki en að mati samgrn. er nauðsyn að gera þar betur eða breyta þeirri skilgreiningu.

Fyrir þessu þingi liggur einnig frv. um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum þar sem er að finna sambærilega skilgreiningu og hér er lögð til. Að mati ráðuneytisins er eðlilegt að sömu kröfur séu gerðar til allra atvinnubifreiðastjóra hvað þetta varðar.

Hér er því skilgreint hvaða háttsemi sé þess eðlis að menn hafi fyrirgert rétti sínum til að fá útgefið atvinnuleyfi á leigubifreið. Samkvæmt frv. mega menn ekki hafa verið dæmdir til refsivistar né framið alvarleg eða ítrekuð brot á reglum um starfsskilyrði greinarinnar.

Í undantekningartilvikum geta stjórnvöld metið hvort umsækjandi fær útgefið leyfi þótt hann hafi brotið af sér. Jafnframt er gert ráð fyrir því að ef menn, ungir að aldri, hafi framið afbrot sé eitthvert svigrúm til að bregðast við því.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.