Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 11:43:23 (1555)

1998-12-03 11:43:23# 123. lþ. 32.2 fundur 281. mál: #A leigubifreiðar# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[11:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði viljað sjá og heyra það hér að hægt væri að veita undantekningar. Ég veit um nokkur tilvik þar sem leigubílstjórar eru öryrkjar og eru að reyna að vinna. Þetta er kannski eina vinnan sem þeir geta unnið en hafa lent í þeim hremmingum kannski vegna sjúkdómsferils eða af öðrum ástæðum að verða gjaldþrota og ekki getað komist yfir það þá er þeim nánast gert það ókleift ef þeir eru bara á lífeyrisgreiðslunum sem eru mjög lágar eins og menn þekkja. Og ef þeir vilja reyna að auka tekjur sínar, t.d. með leigubifreiðaakstri, þá eru þeir algjörlega upp á aðra komnir, þeir þurfa að fá leyfi hjá öðrum, keyra fyrir aðra, og það getur verið erfiðleikum háð. Ég veit að þetta ákvæði hefur valdið öryrkjum töluverðum erfiðleikum og ég hefði viljað sjá hér að það væri möguleiki á undantekningum vegna þeirra tilvika að lífeyrisþegar eru að reyna að vinna sig út úr fjárhagsörðugleikum og hafa eiginlega ekki tök á því að vinna aðra vinnu en leigubílaakstur.