Skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 12:27:00 (1561)

1998-12-03 12:27:00# 123. lþ. 32.3 fundur 282. mál: #A skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[12:27]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Um strætisvagna eða reglubundna fólksflutninga innan sveitarfélaga er það að segja að mér sýnist í fljótu bragði sem greinarnar séu efnislega mjög samhljóða í frv. og í gildandi lögum. Samkvæmt gildandi lögum hefur verið talið heimilt að sveitarfélög bjóði út rekstur almenningsvagna. Ég man ekki betur en það hafi verið gert á Ísafirði eftir að Ísafjörður stækkaði og náði til Þingeyrar. Ég man ekki betur en það er hægt að athuga í samgn. Mér finnst alveg sjálfgert vegna ummæla hv. þm. að farið sé yfir textann til að ganga úr skugga um að framkvæmdin geti orðið með þeim hætti sem löggjafinn ætlast til og vill.

Um það sem hv. þm. spurði, innleiðingu á reglugerð nr. 96/26 í íslenska löggjöf, þá var það talið af samgrn. að stoð væri í íslenskum lögum til að setja þá reglugerð og af þeim sökum var ekki leitað sérstakrar heimildar Alþingis en eins og ég sagði áðan munu þessar reglugerðir lagðar fyrir samgn. Nefndin getur því gengið úr skugga um það hvort hún sé sama sinnis um það og samgrn.