Rannsóknir sjóslysa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 12:35:00 (1566)

1998-12-03 12:35:00# 123. lþ. 32.4 fundur 283. mál: #A rannsóknir sjóslysa# frv., 284. mál: #A siglingalög# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[12:35]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Segja má að mikil vinna liggi að baki samningu þess frv. sem hér liggur fyrir og, eins og segir í athugasemdum við lagafrv., ,,má rekja til þess að árið 1963 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórninni að láta fara fram opinbera rannsókn á orsökum hinna fjölmörgu skipstapa sem orðið höfðu næstu tvö til þrjú árin á undan. Samkvæmt tillögunni átti að leggja fram tillögur að nýjum reglum um sjóhæfni íslenskra fiskiskipa, um breytingar á eldri skipum, staðsetningu veiðarfæra og hjálpartækja og búnað skips í sambandi við þau og annað það, er aukið getur öryggi sjófarenda frá því sem nú er.``

Til þess að gera langa sögu stutta var unnið rækilega að undirbúningi löggjafar um þessi efni. Núgildandi lög eru nr. 34/1985, sbr. lög nr. 21/1986. Borið hefur á því í sambandi við framkvæmd þeirra laga að nokkurrar tortryggni hafi gætt vegna þess að rannsóknarnefnd sjóslysa hefur smátt og smátt þróast upp í að verða hluti af dómskerfinu eða hinu opinbera rannsóknarkerfi. Sjóslys hafa hingað til verið rannsökuð af lögreglu og fyrir dómi í sjóprófum. Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur haft heimild til að mæta við lögregluyfirheyrslur og í sjóprófum og spyrja spurninga. Þetta hefur óhjákvæmilega leitt til þess að menn hafa farið að líta á rannsóknarnefnd sjóslysa sem aukalögreglu og hafa sjóslysarannsóknir að þessu leytinu goldið fyrir það. Rétt er að undirstrika að þetta er ekki aðeins vandamál hér á landi heldur hefur það einnig komið upp í öðrum löndum.

Hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni hefur undanfarin ár verið unnið að því að setja alþjóðlegar reglur um rannsóknir sjóslysa og var samþykkt ályktun um þær á 20. fundi nefndarinnar í nóvember í fyrra. Kjarninn í þeim tillögum er að rannsóknir sjóslysa verði aðskildar frá öðrum rannsóknum og að því leyti gerðar hliðstæðar rannsóknum flugslysa. Er hér lagt til að tillögur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar verði alfarið lagðar til grundvallar um rannsóknir sjóslysa hér á landi. Meginbreytingin verður sú að sjóslysarannsóknir verða algerlega sjálfstæðar og að því leyti gerðar hliðstæðar rannsóknum flugslysa.

Mjög brýnt er að sem bestur lagarammi verði myndaður um rannsóknir sjóslysa hér á landi. Er það ekki síst nauðsynlegt til að tryggja annars vegar réttaröryggi þeirra sem rannsókn beinist að og hins vegar, og ekki síður, til að markmiðum rannsóknar verði náð sem eru einungis að auka öryggi og fækka sjóslysum. Í frv. er höfð hliðsjón af lögum um flugslysanefnd en þau lög hafa reynst vel.

Lögin ná til allra slysa og tjóna, stórra og smárra, er verða í sambandi við rekstur skips og varða öryggi skips, áhafnar og annarra manna, þar með talið þegar liggur við slysi. Í 1. gr. er tekið fram að lögin taki einnig til alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Enn fremur taka lögin til rannsókna á köfunarslysum sbr. 7. gr. laga um köfun, nr. 31 2. apríl 1996.

Lögsaga nefndarinnar er nánar skýrð í 4. gr. Hún tekur til allra íslenskra skipa, svo og allra erlendra skipa í siglingum að og frá landinu þegar slys varðar íslenska hagsmuni. Heimilt er rannsóknarnefndinni að rannsaka önnur slys eða atvik sem verða á erlendum skipum er koma til landsins eða í íslenska efnahagslögsögu ef nefndin telur ástæðu til þess eða þess er óskað af fánaríki. Nefndin skal m.a. rannsaka sjóslys þar sem skráð skip eiga hlut að máli og sem verða á íslensku yfirráðasvæði. Sjóslys þar sem skip skráð á Íslandi á hlut að máli, hvar sem það er statt í heiminum. Sjóslys og önnur atvik til sjós og á vötnum sem verða á óskráðum skipum, þar með talið skipum undir 6 metrum að lengd. Nefndin skal annast skráningu slysa og atvika sem verða um borð í íslenskum skipum af hvaða stærð sem er, svo og skráningu slysa og atvika sem verða á erlendum skipum sem nefndin tekur til skoðunar.

Í 5. gr. er tekið fram að nefndin starfi sjálfstætt og óháð stjórnvöldum, lögregluyfirvöldum og dómstólum. Í þeirri grein er þó heimild til samgrh. til að fela nefndinni að rannsaka slys ef ríkar ástæður eru til og almannahagsmunir krefjast. Í 6. gr. eru ákvæði um skyldu skipstjóra til að annast skráningu og tilkynningu allra slysa á mönnum eftir nánari reglum sem samgrn. setur í samráði við Tryggingastofnun ríkisins. Því miður verður að segja að mikill misbrestur hefur verið á því að þessari tilkynningarskyldu hafi verið nægjanlega vel sinnt undanfarin ár en fullnægjandi tilkynningar um slys eru forsenda þess að hægt sé að rannsaka þau að gagni. Það er til lítils að rannsaka aðdraganda slysa mörgum mánuðum eftir að þau verða.

Í 17. gr. frv. er lagt til að vanræksla á tilkynningu geti varðað sektum.

Í 7.--11. gr. eru ákvæði um skyldu manna til að aðstoða nefndina við rannsókn, hvernig fara eigi með slysavettvang og um rétt nefndarinnar til að krefjast gagna frá útgerðum og öðrum aðilum og taka skýrslur af mönnum.

Í 12. gr. er eitt þýðingarmesta ákvæðið en þar segir að skýrslum rannsóknarnefndar sjóslysa skuli ekki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum. Er sérstaklega tekið fram að ekki skuli afhenda gögn er geyma framburð aðila og vitna fyrir nefndinni. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að eftir sem áður geta sjóslys orðið tilefni opinberrar rannsóknar en það verður utan verksviðs rannsóknarnefndar sjóslysa.

Í 14. gr. eru ákvæði um að nefndin eigi að gera skýrslu um sjóslys svo fljótt sem verða má. Í greininni er einnig gert ráð fyrir að nefndin geri tillögur til Siglingastofnunar um úrbætur í öryggismálum til sjós eftir því sem tilefni gefst til. Ber Siglingastofnun að taka afstöðu til tillagnanna. Þá eru í þessari grein ákvæði um að árlega skuli gefin út heildarskýrsla um störf nefndarinnar.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram að skýrsla ársins 1995 mun koma út í þessum mánuði. Gert er ráð fyrir að skýrslan fyrir árið 1996 komi út í febrúar eða mars og fyrir árið 1997 næsta vor og árið 1998 síðar á árinu. Ástæðan fyrir því að ekki var hægt að koma skýrslunni fyrir árið 1995 fyrr út var að sá sem hafði séð um útgáfuna veiktist og var ekki vitað hvernig yrði um framhald á útgáfustarfsemi hans. Þegar ljóst varð að ekki yrði þar framhald á var útgáfan boðin út sl. vor.

Jafnframt þessu frv. er mælt fyrir frv. um breytingar á siglingalögum, þ.e. ákvæði 220. gr. um sjópróf. Um það er þetta að segja: Með breytingum þeim á rannsóknum sjóslysa sem lagðar eru til í frv. um þær kemur fram að ekki er lagt til að leggja sjópróf af enda geta þau verið nauðsynleg vegna annarra ástæðna en sjóslysarannsókna sem fara eiga fram sjálfstætt. Af þessum sökum þarf að gera nokkrar breytingar á kaflanum um sjópróf í siglingalögum. Hafa ákvæðin um sjópróf þess vegna verið endurskoðuð með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á réttarfari landsins. Meginbreytingin er þó sú að ekki verður lengur skylda að halda sjópróf. Þar sem sjóslysarannsóknir fjalla einungis um öryggi sjófarenda er eftir það hlutverk sjóprófa að leiða í ljós refsi- eða skaðabótaábyrgð. Sjópróf eru í eðli sínu hliðstæð þinghöldum sem haldin eru skv. 77. gr. einkamálalaga og má færa ákveðin rök fyrir því að þau ákvæði ein séu nægjanlegar heimildir til að taka sjóferðaskýrslu fyrir dómi. Ríkissaksóknari og hagmunaaðilar telja hins vegar nauðsynlegt með hliðsjón af sérstöðu siglinga og útgerðar að hægt sé að halda sjópróf eins og verið hefur þótt þau verði ekki skylda. Í frv. er lagt til að sjópróf verði ekki skylda en hins vegar geti þeir sem tilgreindir eru í 2. gr. frv. óskað eftir sjóprófum. Gera má ráð fyrir að sjóprófum fækki heldur enda eru flest tilvikin rannsökuð af öðrum aðilum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Enginn vafi er á því að hér er hreyft mjög merkilegu og viðkvæmu máli sem nauðsynlegt er fyrir okkur að skipa eins vel og kostur er vegna þess sem í húfi er. Sjóslys eru allt of tíð hér á landi og hin nýja löggjöf varðandi rannsóknir sjóslysa ásamt ýmsum öðrum ráðstöfunum sem gerðar hafa verið beinist að því að komast að raun um orsakir slysa og reyna að koma í veg fyrir sjóslys í framtíðinni.

Tilgangurinn með lagasetningunni er jafnframt að eyða þeirri tortryggni sem verið hefur innan sjómannastéttarinnar í garð sjóprófa eins og þau hafa verið rekin sem hefur bitnað á starfsemi rannsóknarnefndar sjóslysa. Ég vil því vænta þess að með hinni nýju skipan muni sem fyrst, vonandi strax, eyðast sú tortryggni sem uppi er þannig að gott samstarf megi takast með sjómönnum, útgerðarmönnum og rannsóknarnefnd sjóslysa eins og tekist hefur hjá rannsóknarnefnd flugslysa en lögin eru sambærileg eins og hér hefur komið fram.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.