Rannsóknir sjóslysa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 12:46:58 (1567)

1998-12-03 12:46:58# 123. lþ. 32.4 fundur 283. mál: #A rannsóknir sjóslysa# frv., 284. mál: #A siglingalög# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[12:46]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég fagna þessum tveimur frumvörpum og tek heils hugar undir með hæstv. ráðherra um nauðsyn breytinga á þeim. Ég vildi þá fyrst víkja nokkrum orðum að frv. til laga um rannsóknir sjóslysa.

Hæstv. ráðherra kom réttilega inn á að nauðsynlegt væri að vinna að fækkun slysa meðal sjómanna því að þau væru allt of kostnaðarsöm og mörg. Ég gat þess fyrr í morgun að hæstv. ráðherra hefði skipað fimm þingmenn í sérstaka nefnd til að gera tillögur um frekari forvarnaaðgerðir vegna hárrar slysatíðni sjómanna. Þar kom m.a. fram að slys á sjómönnum á síðustu tíu árum, frá 1986--1996, eru tæp sex þúsund.

Í þessari skýrslu, eftir að Tryggingastofnun ríkisins var innt eftir fjölda einstaklinga sem metnir hefðu verið með 10--49% örorku á árunum 1984--1996, kom fram að á 13 ára tímabili hefðu 1.075 launþegar í landi verið metnir til örorku, að meðaltali um 83 á ári. Á þessu tiltekna tímabili voru 402 sjómenn metnir til örorku, þ.e. 30 sjómenn á ári að meðaltali. Útgjöld slysatrygginga Tryggingastofnunar ríkisins námu á árinu 1996 rúmlega 463 millj. kr. og þar af voru rúmlega 184 millj. kr. vegna sjómanna, þ.e. 39% heildarútgjalda. Þær upplýsingar eru mjög alvarlegar þegar litið er til þess að sjómenn eru innan við 5% þeirra sem starfa á íslenskum vinnumarkaði.

Herra forseti. Í frv. til laga um rannsóknir sjóslysa segir m.a. í 2. gr. að sjóslys merki hvern þann atburð sem leiði til skaða á mönnum og tjóns á skipi og verðmætum í sambandi við rekstur skips.

Í 4. gr. segir að lögsaga rannsóknarnefndar sjóslysa taki til allra íslenskra skipa, svo og allra erlendra skipa í siglingum að og frá landinu þegar slys varðar íslenska hagsmuni.

Hæstv. ráðherra kom áðan inn á það alþjóðasamstarf sem við búum við varðandi Alþjóðavinnumálastofnunina. Í samþykktum þar segir m.a. að ekkert megi spilla rétti nokkurs ríkis til að framkvæma sjálfstæða rannsókn samkvæmt eigin landslögum á sjóslysi sem orðið hefur innan lögsögu þess. Hér er valdsvið sjóslysanefndar því verulega útvíkkað og full ástæða til og nauðsynlegt með tilliti til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Það hefur borið á því á umliðnum árum að upplýsingar um slys á sjómönnum hafi ekki verið skráð þannig að byggja megi á þeim rökstuðning fyrir því að eitthvert eitt tiltekið starf um borð í skipi sé öðru hættulegra. Því er nauðsynlegt ákvæði í 6. gr. um að skipstjóra eða þeim er kemur í hans stað sé skylt að annast skráningu og tilkynningu allra slysa á mönnum sem verða á skipi eftir nánari reglum er samgönguráðuneytið setur í samráði við Tryggingastofnun ríkisins.

Ég vitnaði til Tryggingastofnunar ríkisins áðan. Í upplýsingum sem þaðan koma eru skráningar mjög takmarkaðar og ganga eingöngu út á að réttlæta greiðslur til útgerðarmanna eða sjómanna, ekki er skráð hvar slysið varð, hvernig, við hvaða aðstæður o.s.frv.

7. gr. er athyglisverð, herra forseti. Ég er ánægður með framsetningu þeirra mála. Ég gat áðan um nefnd sem benti í gögnum sínum á atriði sem virtist einn af helstu slysavöldum meðal sjómanna um borð í skipum. Slys á sjómönnum verða einmitt þegar verið er að hífa eða slaka út veiðarfærum, þau verða við blakkir, tromlur og hvers konar annan búnað sem notaður er til hífinga. Í 7. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Hafi sjóslys orðið, sbr. 6 gr., má ekki breyta vettvangi fyrr en skoðun þar til bærra aðila hefur farið fram, þar með talið að taka til geymslu alla hluti sem hreyfðir verða og tengjast slysinu. Verði sjóslys á hafi úti, þar sem eigi verður komist hjá því að breyta vettvangi áður en formleg rannsókn fer fram, er skipstjóra og öðrum skipstjórnarmönnum skylt að gera ítarlega skýrslu um vettvang, tildrög slyss og hverjir voru á vettvangi við störf eða annað. Skipstjórnarmönnum er skylt að taka til varðveislu hvers konar hluti sem bila, svo sem blakkir, lása, víra, keðjur, tóg, veiðarfærahluta og annað sem tengist slysinu. Verði slysið rakið til annars búnaðar, svo sem vél-, raf-, gufu-, hand- eða vökvaknúinna tækja, skal sá búnaður ekki notaður fyrr en rannsókn hefur farið fram á honum. Í þeim tilvikum þegar viðgerð á tæki úti á sjó er óumflýjanleg er skipstjóra og yfirvélstjóra skylt að sjá um að ítarleg skýrsla sé gerð um bilunina og viðgerðina og að allir hlutir, sem taka þarf út og setja nýja í staðinn fyrir, séu varðveittir. Slíkar skýrslur, svo og allir hlutir sem skylt er að taka til varðveislu um borð í skipi í sambandi við slys, skulu afhentir nefndinni [þ.e. sjóslysanefnd] við komu til hafnar.``

Í þessu frv. kemur líka fram athyglisvert atriði sem ekki hefur verið áður í lögum og það er í 10. gr.:

,,Rannsóknarnefnd sjóslysa ákveður hvenær skip má láta út höfn eða halda áfram för sinni eða hlutar þess sem rannsóknin beinist að eru látnir af hendi.

Nefndin getur haldið skipi eða hverjum hluta þess sem er svo lengi sem hún telur þörf vegna rannsóknarinnar.``

Þetta er mikilvægt atriði. Því miður hefur það gerst hér á umliðnum árum að þegar skip hefur komið í höfn með slasaða sjómenn hefur þeim verið komið fyrir á sjúkrahúsi og skipið síðan haldið til veiða á ný án þess að rannsókn hafi farið fram. Rannsóknin fer kannski fram mörgum dögum seinna og kannski aldrei.

Við gerðum tillögu um það, þessi margumrædda nefnd, að nauðsynlegt væri að leggja þá skyldu á skipstjórnarmenn að skrá öll slys um borð og þau atvik þegar liggur við slysi og senda þær upplýsingar til útgerðar og rannsóknarnefndar sjóslysa. Þar ættu m.a. að vera upplýsingar um vinnutíma þess slasaða. Verði alvarlegt slys um borð í skipi skuli rannsóknarnefnd sjóslysa heimilt að stöðva skipið meðan rannsókn slyssins fer fram. Útgerð beri ábyrgð á að fulltrúar hennar sjái um að verði slys um borð séu strax gerðar viðhlítandi ráðstafanir til að fara yfir öryggismál um borð ásamt allri áhöfninni og koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Virðulegi forseti. Það er nefndarmönnum mikið ánægjuefni að sjá hve vel hæstv. samgrh. og starfsfólk samgrn. hefur brugðist við þeim tillögum sem þingmannanefndin skilaði frá sér. Störf hæstv. samgrh. og starfsfólks samgrn. bera þess glögg merki að þau geri sér fulla grein fyrir alvarleika málsins og það er virðingarvert. Við ræddum um að starfsemi rannsóknarnefndar sjóslysa yrði verulega breytt og um hana sett sambærileg lög og um rannsóknarnefnd flugslysa. Megináhersla í starfi nefndarinnar verði lögð á að upplýsa orsök slysa og vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum. Kunnáttumönnum verði skipað í nefndina án þátttöku hagsmunaaðila og starfsmönnum fjölgað. Skýrsla rannsóknarnefndar sjóslysa komi út á t.d. sex mánaða fresti en jafnframt verði lokaniðurstöður um sjóslys gefnar út jafnóðum og þær liggja fyrir svo að nýta megi þær til forvarnastarfa.

Þegar litið er til, eins og hæstv. samgrh. kom hér inn á, kostnaðar af slysum, þá segir í lok grg., með leyfi forseta:

,,Að lokum skal tekið fram að með frumvarpinu er leitast við að velja þá leið sem hefur minnstan kostnað í för með sér án þess þó að rannsóknarhagsmunir og réttaröryggi skerðist.``

Og í umsögn um frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. segir:

,,Talið er að árlegur rekstrarkostnaður muni nema um 21,5 millj. kr. en það er 4,6 millj. kr. hækkun frá fjárveitingu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999.``

Nefndarmenn fengu upplýsingar víða að. Til fróðleiks vildi ég nefna eitt bréfanna sem vakti athygli nefndarmanna. Það var frá dr. Brynjólfi Mogensen sem er dósent í slysalækningum, forstöðulæknir slysa- og bráðasviðs. Hann segir, með leyfi forseta, í bréfi til nefndarinnar:

,,Sjómennskan er hættulegasta starfið á Íslandi í dag. Dánartíðni er mun hærri en meðal þeirra sem starfa í landi. Slysatíðni er há og má gera ráð fyrir því að einn af hverjum tíu sjómönnum slasist á hverju ári. Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru upplýsingar um orsök sjóslysa af fremur skornum skammti. Þetta er þeim mun merkilegra þegar slysakostnaður sjómanna er vart undir 280--300 milljónum á hverju ári. Líkast til er kostnaður vegna sjúkdóma enn þá hærri.``

Herra forseti. Hér er vissulega alvarlegt mál á ferðinni og mikilsvert að vel til takist með fækkun slysa meðal sjómanna. Sá kostnaður sem áætlaður er til þessara rannsókna er ekki mikill miðað við þann sparnað sem af gæti hlotist ef vel til tekst með þá ætlan samgrh. að gera breytingar á rannsóknum sjóslysa.

Ég fagna því líka að hér skuli vera lagt fram frv. til laga um breytingar á siglingalögum varðandi sjópróf. Vissulega er full ástæða til að á þeim þætti rannsókna á slysum sjómanna og þeim atburðum sem verða á sjó sé tekið með þessum hætti, þ.e. rannsóknir sjóslysa séu í samræmi við það sem gerist varðandi flugslys. Annars vegar sé leitað orsaka og unnið að leiðum til að fyrirbyggja slys og hins vegar séu svo sjóprófin haldin líkt og hér er gert ráð fyrir. Þar er verið að leita að sök en þetta yrði glögglega aðskilið, eins og kom fram hjá hæstv. samgrh. Það var eitt af þeim atriðum sem við í nefndinni töldum löngu tímabært, að gjörbreyta formi sjóprófa þar sem m.a. verði gerð sú breyting á að fimm kunnáttumenn skipi sérstakan sjódóm er rannsaki og kalli til viðkomandi aðila ef um alvarleg sjóslys er að ræða. Þá gildir einu hvort um heimahöfn viðkomandi aðila er að ræða en nokkuð bar á því að þegar sjópróf voru haldin í höfnum úti á landi að þeir aðilar sem sátu þá sem meðdómarar tengdust með einum eða öðrum hætti þeim aðilum sem áttu hlut að máli. Hér er því gengið í átt til þess að koma þessum málum til betri vegar.

Ég hef áður þakkað hæstv. ráðherra og starfsmönnum samgrn. og siglingamála fyrir þetta framtak. Það er af hinu góða og í samræmi við alvarleika þess hversu mikill kostnaður er fylgjandi hárri slysatíðni sjómanna. Þetta segir allt um það hversu nauðsynlegt er að málið fái farsælan og skjótan framgang hér á Alþingi. Ég vona að það starf hæstv. samgn. verði til heilla og hagsbóta sjómönnum sem lengi hafa þurft að búa við alvarlegt ástand.