Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 13:30:50 (1568)

1998-12-03 13:30:50# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[13:30]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Vorið 1997 var þál. um hafnaáætlun samþykkt í fyrsta skipti. Það var fyrir árið 1997 til ársins 2000 og eins og hv. þingmönnum er kunnugt ber að endurskoða hana á tveggja ára fresti eins og hér er gert.

Ég vil í upphafi máls míns, herra forseti, víkja aðeins að því að samkvæmt gildandi hafnalögum er gert ráð fyrir því að á næsta ári verði varið 693 millj. kr. til hafnamála og sömuleiðis á árinu 2000. Þessi fjárhæð hækkar samkvæmt þeirri áætlun sem hér liggur fyrir um 100 millj. kr. á næsta ári og um 200 millj. kr. á árinu 2000 og síðan um 50 millj. kr. á árinu 2002. Ef við berum saman þessi tvö tímabil, frá árinu 1997--2000 og frá 1999--2002, kemur í ljós að aukning hafnafjárins er nálægt einum milljarði kr., úr 2.520 millj. kr. í 3.502 millj. kr. Aukning á framlögum til hafnargerðar á þessu tímabili er því tæplega 40%.

Jafnframt er nauðsynlegt að hafa í huga að gert er ráð fyrir því að skuldir verði greiddar niður á áætlunartímabilinu. Allar núverandi skuldir ríkissjóðs við hafnarsjóðina verða greiddar niður en gert er ráð fyrir að ekki náist að greiða hlut ríkissjóðs niður að fullu þar sem framkvæmdir eru mestar. Skuld ríkissjóðs við hafnarsjóði verður um 465 millj. kr. í lok tímabilsins en var hæst rúmar 700 millj. kr. í árslok 1997.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að hér er um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga að tefla. Oft getur svo borið við að óhjákvæmilegt sé að ráðast skyndilega og ófyrirséð í hafnarframkvæmdir, kannski vegna þess að skemmdir hafi orðið á hafnargarði eða sandur borist inn í höfn. Ástæða getur líka verið sú að ný skip hafi komið til sögunnar sem eru djúpristari en þau gömlu eða nýr atvinnurekstur er tekinn upp. Því er nauðsynlegt að nokkurt svigrúm sé haft til að hægt sé að leyfa sveitarfélögunum að vinna fyrir sig fram og hefur þá sú verklagsregla skapast að sveitarfélögin verði að greiða fjármagnskostnað.

Þau atriði sem einkenna þá áætlun sem hér liggur fyrir eru í fyrsta lagi: Endurnýjun fiskimjölsverksmiðju og skipa sem stunda veiðar á uppsjávarfiski og kröfur um meiri hagkvæmni við löndun afla og lestun afurða kalla á endurnýjun í höfnum. Þetta skýrir mikla þörf fyrir hafnargerð á Norðurlandi eystra, Austurlandi og Suðurnesjum.

Í öðru lagi hafa stærri og djúpristari togskip en áður komið til sögunnar og það kallar jafnframt á aukið dýpi, svo sem á Húsavík og í Grindavík. Á Húsavík gerðist það jafnframt að í ljós kom að ekki var hægt að dýpka höfnina nema með sprengingum. Það tífaldar kostnaðinn sem veldur því að það er hagkvæmari lausn og betri að byggja nýja höfn utan við þá höfn sem nú er, með grjótvarnargarði miklum, og má búast við að sú framkvæmd geti hafist á árinu 2001.

Í stærstu verstöð landsins, Vestmannaeyjum, er komið að mikilli endurnýjun stálþilja allt frá Nausthamri og inn í Friðarhöfn. Það verkefni mun standa yfir á næstu árum og næst ekki að ljúka því innan fjögurra ára.

Eitt af einkennum þessarar hafnaáætlunar er að mikil endurnýjunarþörf er víða um landið. Á þessu tímabili eru hæstu fjárveitingar til þessara staða:

Grindavík 494 millj. kr. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt hefur innsiglingin í Grindavík verið mjög háskaleg. Þar hafa orðið hörmuleg slys og af þeim sökum var tekin ákvörðun um það fyrir örfáum árum hvernig farið skyldi í það að laga innsiglinguna. Í þessari hafnaáætlun er gert ráð fyrir því að hægt verði að dýpka innsiglinguna, en síðan í kjölfarið á því er nauðsynlegt að byggja ytri hafnarmannvirki, hafnargarða, til að siglingaleiðin megi teljast örugg. Þetta er mjög fjárfrek framkvæmd en ég hygg að þingmenn séu sammála um að hún sé eigi að síður nauðsynleg vegna þeirra miklu umsvifa sem eru í höfninni.

Næstdýrasta framkvæmdin er í Vestmannaeyjum, 330 millj. kr., Húsavík 304, Hafnasamlag Norðurlands 244 og Hornafjörður 240. Þar háttar svo til að nauðsynlegt er að ráðast í nýja vöruhöfn og er gert ráð fyrir henni hér. Sandgerði 197 millj. og Vopnafjörður 180 millj.

Samkeppni á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt til þess að þar er nægjanlegt framboð á hafnarmannvirkjum til að leysa þarfir viðskiptavina hafnanna. Því er ekki gert ráð fyrir framlögum til hafna á þessu svæði. Í hafnalögum er kveðið á um að greiðsluþátttaka ríkisins í einstökum verkefnum sé ákveðin í hafnaáætlun. Jafnframt segir í lögunum að tekið skuli tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðanna. Með vísan til þessa ákvæðis er lagt til að hjá hafnarsjóðum sem höfðu yfir 100 millj. kr. í tekjur lækki greiðsluþátttaka ríkissjóðs um 20 prósentustig frá því sem ella mundi. Þetta á við um Hafnasamlag Norðurlands og Vestmannaeyjahöfn. Lækkunin nær þó eingöngu til nýrra verkefna en framlag til verkefna sem voru á fyrri áætlun helst óbreytt.

Fjárlög áranna 1997 og 1998 fylgdu gildandi hafnaáætlun fullkomlega og festu hana í sessi. Hafnarstjórnir finna að þær geta treyst áætluninni og hefur það valdið ákveðinni hugarfarsbreytingu hjá þeim. Þær sjá að hægt er að gera áætlanir til lengri tíma varðandi skipulagningu verka og fjármögnun þeirra. Sveitarfélögin geta treyst því að ríkisvaldið fjármagni sinn hluta í samræmi við áætlunina.

Við undirbúning og gerð áætlunarinnar var beitt samræmdu mati á þörf fyrir framkvæmdir um allt land. Mikil vinna hefur verið lögð í að safna upplýsingum um umferð, afla og vörumagn í höfnunum og á grundvelli þeirra hefur verið búin til aðferð til að raða framkvæmdaóskum hafnarstjórna í forgangsröð. Niðurstaða þessarar röðunar réð að mestu leyti því hvaða framkvæmdir komust á áætlun. Enn fremur hefur þeirri reglu verið beitt nú við endurskoðun hafnaáætlunar að miða við að verkefni sem voru á eldri áætlun haldi stöðu sinni ef viðkomandi hafnarstjórn óskar þess. Þetta verður til þess að á fyrstu tveim árum áætlunarinnar eru fyrst og fremst verkefni sem eru á gildandi áætlun. Hækkun framlaga til hafnamála verður þó til þess að nokkur ný og umfangsmeiri verkefni koma til framkvæmda á næsta og þar næsta ári eða fyrr en gert hafði verið ráð fyrir. Má þar nefna framkvæmdir á Húsavík, Vopnafirði, Djúpavogi, Hornafirði og í Grindavík.

Herra forseti. Ég hygg að ég geti fullyrt að mjög hafi verið vandað til undirbúnings þessarar þáltill. og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til samgn. og síðari umr.