Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 13:49:31 (1570)

1998-12-03 13:49:31# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar hafnamál eru rædd ber Reykjavíkurhöfn oftar en ekki á góma, og þá er sérstakt orðatiltæki notað eins og hv. síðasti þm. kom inn á, að Reykjavíkurhöfn beri einhvern ægishjálm yfir aðrar hafnir og það réttlætti að Reykjavíkurhöfn ætti engan styrk að fá en hins vegar ættu hafnir í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði að fá styrki sem kæmu þeim líklega í einhverja ægisstöðu gagnvart Reykjavík. Menn skulu ekki gleyma því að Reykjavík er einn stærsti útgerðarbær landsins, einn af stærstu útgerðarbæjum landsins, og stór hluti af viðskiptavinum Reykjavíkurhafnar eru fiskiskip eðli málsins samkvæmt. Eins og þróunin hefur verið í gegnum árin og margir þingmenn dreifbýlisins hafa kvarta yfir að hafnir standi ekki undir sér, þá gerir Reykjavíkurhöfn það ekki heldur hvað áhrærir fiskiskipin. Það er alveg sama staða hjá Reykjavíkurhöfn og hjá hinum dreifðu höfnum.

Hitt er svo annað mál sem einatt kemur upp að gera þurfi nánast öllum höfnum til góða án þess að litið sé til hagkvæmni. Skiptir þá ekki máli hvaðan af landsbyggðinni þingmaður kemur, hvort hann kemur úr Reykjaneskjördæmi, að norðan eða úr hvaða kjördæmi sem er. Hæstv. samgrh. hefur boðað þá stefnu, sem er eðlileg og rétt, að horfa til fleiri átta en bara hafnanna sjálfra. Það er eðlilegt að horfa á flugsamgöngurnar, umferðaræðar og hafnir. Þetta þrennt á eðlilega að tengja saman. Hvers konar vitleysa er það yfir höfuð að fara að byggja upp stórhafnir í Garðabæ og Kópavogi? Til hvers? Og hvaðan kemur þetta fé annars staðar en frá skattborgurunum? Og eru menn búnir að gleyma að hér þarf að halda á málum þannig að ekki taki út yfir allan þjófabálk í skynsemi í uppbyggingu hafna? Er ekki rétt að byggja fáar, stórar góðar hafnir og hafa þær svo að sómi sé að?