Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 13:51:50 (1571)

1998-12-03 13:51:50# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[13:51]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að elta ólar við orðaræðu hv. 10. þm. Reykv., Guðmundar Hallvarðssonar. Ég hef heyrt hann halda ræðu af þessum toga áður, oft þó betri en þessa. Við þurfum ekkert að fara mjög rækilega yfir það hver sérstaða Reykjavíkur er í okkar samfélagi. Það kom mjög glögglega fram í umræðu um byggðamál nú á dögunum og laut að samgöngumálum, eins og hv. þm. nefndi, flugsamgöngum og umferðarmálum og hér er um að ræða hafnamál. Þar kom líka fram hlutdeild höfuðborgarinnar, eðlileg eða óeðlileg í opinberri stjórnsýslu og þau störf sem falla til handa íbúum borgarinnar í þeim efnum. Reykjavíkurborg hefur einfaldlega sérstöðu sem höfuðborg landsins. Þannig er það og öll tölfræði og allar efnahagslegar niðurstöður sýna okkur að það hefur ekki verið uppi á borðum að Reykjavíkurborg nyti ríkisstyrks í hafnamálum, ég heyrði ekki hv. þm. halda því fram að hægt væri að setja nein réttlætisrök á borðið um það. Reykjavíkurhöfn er safnhöfn. Hér koma skip í stórum stíl, lesta hér varning sinn sem síðan er dreift með strandferðaskipum hringinn í kringum landið. Hér fer yfirleitt varan í gegn. Við getum auðvitað rætt málið á vettvangi fiskveiða líka, það er sjálfsagt að gera það. En við verðum að horfa á málið í heild sinni. Menn ættu einfaldlega að skoða afkomutölur Reykjavíkurhafnar samanborið við aðrar. Og tala síðan um samkeppni við Kópavog eða Garðabæ. Hvers konar fásinna er þetta? Stór-Hafnarfjarðarsvæðið stendur auðvitað fyrir sínu eins og fyrri daginn. Um það er ekki deilt en ég vek athygli á því að um langt árabil hafa styrkir til Hafnarfjarðarhafnar verið stórlega skertir og fjármunir frá ríkisvaldinu hafa verið skammarlega litlir en því verður fullkomlega neitað að þessar þrjár hafnir verði aflagðar hvað varðar rétt til ríkisstyrks. Það er óréttlæti, það stenst ekki þá jafnræðisreglu sem við byggjum á. Fullkomlega fráleitt og ég trúi því ekki að það ætli að verða sérstök stefna Sjálfstfl. í þessari umræðu að þannig verði gengið um.