Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 13:56:24 (1573)

1998-12-03 13:56:24# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[13:56]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur í ljós að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur ekki lesið í gegn þær tillögur sem hér er um að ræða í þessum þremur sveitarfélögum. Það er enginn að leggja til að gerð verði stórskipahöfn í Kópavogi. Það er enginn að leggja það til, skoði hv. þm. tillögurnar sem frá Kópavogi hafa komið. Það er einmitt verið að leggja til að bæta þá aðstöðu sem fyrir er í Garðabæ varðandi skipaviðgerðir. Það er enginn að tala um stórskipahöfn þar. Í Hafnarfirði er verið að leggja í miklar framkvæmdir núna, m.a. vegna þess að þar er flotkví til skipaviðgerða sem þarf að koma í varanlegt skjól. Það er stærsti þáttur þess máls. Það er einfaldlega verið að ræða um það hér og ég veit ekki til að Hafnarfjarðarhöfn sé í stórkostlegri samkeppni við Reykjavíkurhöfn fremur en aðrar hafnir á þeim vettvangi. Það er kannski fremur hægt að líta á að Hafnarfjarðarhöfn væri í samkeppni við Akureyrarhöfn í skipaviðgerðum og þá spyr ég: Hver er þá samkeppnisaðstaða Hafnarfjarðarhafnar í skipaviðgerðum á Akureyri þegar Akureyringar njóta ríkisstyrks en Hafnfirðingar ekki? Það eru þessir þættir sem ég er að undirstrika hér og eru lykilatriði málsins. Hv. þm. má því ekki tala þannig að verið sé að búa til nýjar Reykjavíkurhafnir í þessum þremur sveitarfélögum. Það er auðvitað fjarri öllu lagi. Það gefur auga leið að stóru skipafélögin hafa haslað sér völl í Reykjavík vegna þess að Reykjavíkurhöfn og Reykjavíkurborg hafa haft bolmagn til að bjóða upp á nauðsynlega aðstöðu fyrir þennan umfangsmikla rekstur. Það er auðvitað kjarni málsins og hann hefur náttúrlega þróast eftir því sem tímar hafa liðið fram. Ég er ekkert að kvarta yfir því að Reykjavíkurhöfn, svo lengi sem hægt er að bjóða upp á það, sé sá risi á þessum vettvangi. Þannig er það bara og við skulum horfast í augu við það, en einmitt vegna þess að Reykjavíkurhöfn er það þá gilda dálítið önnur lögmál um hana en aðrar hafnir í landinu. Eins og ég sagði áðan höfum við hv. þm. oft átt orðræður um þetta, ekki síst meðan hann var formaður Hafnasambands sveitarfélaganna og hann horfði kannski öðrum augum á þetta þá, en eftirtektarverðast verður náttúrlega að heyra í næsta hv. ræðumanni, hv. þm. Kristjáni Pálssyni, og athuga hvort hann deilir skoðunum með hv. þm. og hæstv. ráðherra í árásum á þessi þrjú sveitarfélög í Reykjaneskjördæmi.