Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 13:59:04 (1574)

1998-12-03 13:59:04# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með þá hafnaáætlun sem hér er lögð fram og lýsa yfir ánægju minni með það hve miklu er úthlutað til hafna í Reykjanesi. Ég held að við þingmenn Reykn. getum verið ánægðir með það hve miklum árangri hefur verið náð í að bæta stöðu hafnanna á þessu svæði. Það vita allir sem staðið hafa í þeirri baráttu að bæta hafnaraðstöðu sérstaklega á Suðurnesjum, að það hefur ekki gengið sem skyldi fyrr en við sjáum nú loks fyrir endann á því að allar þær mikilvægu hafnir sem þar eru fá úrlausn sinna mála og það veit hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson mætavel, sem búinn er að sitja á þingi í bráðum í sex eða sjö ár. Það er í sjálfu sér alltaf hægt að velta fyrir sér mikilvægi og forgangsröðun hafnarframkvæmda en ég held að ef við lítum á það sérstaklega þá erum við að leysa úr þörfum t.d. Grindavíkurhafnar sem hefur verið, eins og réttilega kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan, hættuleg í orðsins fyllstu merkingu og innsiglingin ekki í raun fær nema í góðum veðrum. Með þessum framkvæmdum er verið að stíga það skref að gera Grindavíkurhöfn að árshöfn ef mætti orða það svo og framkvæmdirnar í samræmi við það.

[14:00]

Það er verið að dýpka innsiglinguna þannig að hægt er að fara þarna inn með stór skip og einnig að byggja upp varnargarða við innsiglinguna fyrir utan núverandi höfn svo innsiglingin verði fær í flestöllum veðrum. Ég veit að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson veit þetta mætavel og er ekki beinlínis að ráðast á þessar framkvæmdir til þess að koma öðrum af stað en ég held að rétt sé að geta sérstaklega um þessa framkvæmd og einnig framkvæmdina í Sandgerði þar sem verið er að laga höfnina þannig að hægt sé að ferðast um hana með stærri skip. Þar hafa eingöngu verið grafnar rennur til þessa svo stór skip geti komist inn á flóði en ekki á milli hafnargarða. Þetta hefur takmarkað mjög notagildi hafnarinnar en hér eru verulegar framkvæmdir sem munu auka alla möguleika á nýtingu hennar í þá áttina að vera eðlileg. Því fagna ég þessum tveimur framkvæmdum sérstaklega og vona svo sannarlega að þingmenn muni fylkja sér á bak við þær framkvæmdaáætlanir sem hér eru á ferðinni.

Margar merkilegar framkvæmdir hafa verið gerðar við hafnirnar í Hafnasamlagi Suðurnesja og nefni ég þar Helguvíkurhöfn og smábátahöfn en enn er eftir að ljúka framkvæmdum við Njarðvíkurhöfn, þær framkvæmdir hafa beðið árum saman, jafnvel áratugum saman. Í Njarðvíkurhöfn er komin upp góð aðstaða til skipaviðgerða þar sem byggt hefur verið upp eitt stærsta hús sinnar tegundar til að geta hýst skip svo nú er hægt að gera við skip allan ársins hring innan dyra og hefur það bætt alla aðstöðu á svæðinu gríðarlega. Þess vegna er nauðsynlegt að taka til skoðunar og þá í nefndinni hvort ekki sé hægt að bæta aðeins úr varðandi þennan grjótgarð í Njarðvík svo að þetta mikla skýli verði betur brúklegt til þeirra verka sem til var ætlast.

Ég vil taka fram í þessari umræðu að Siglingastofnun og þær stofnanir sem standa að þessari áætlunargerð hafa gert það með miklum sóma og við sjáum vel hvernig framkvæmdir hafa vaxið að skipulagi á undanförnum árum og með líkansstöðunni er hægt að sjá fyrir fram hvernig aðgerðir munu virka. Ég hef séð það í hafnarframkvæmdum hvernig hægt væri að bæta við örlítilli framkvæmd sem hægt var að sjá á líkaninu að mundi virka fyrir lítið fé sem hefði áður fyrr verið tilraun upp á margfaldar upphæðir. Mér hefur sýnst að þessi líkansstöð hafi svo sannarlega sannað gildi sitt og allir þeir peningar sem þangað hafa farið svo sannarlega verið þess virði. Ég held líka að þessi stöð geti verið fyrirmynd fyrir störf á þessum vettvangi um allan heim.

Eins og áætlunin ber með sér og hefur komið fram hjá hv. þm. í umræðunni vantar alltaf meira og meira fjármagn í hafnarframkvæmdir. Ef eitthvað er hefur verið skorið niður það fjármagn sem hafnir hafa fengið og er það slæmt því að hafnir eru að þróast frá ári til árs. Flutningaformið er sífellt að breytast, skip eru að breytast og hafnir er erfitt að skipuleggja mjög langt fram í tímann þó svo menn hafi hug á því. Þess vegna er slæmt hvað við getum seint brugðist við eðlilegum breytingum sem eru þó fyrst og fremst vegna atvinnuhátta, sem sagt aðallega vegna flutningatækni sem er síbreytileg og er fyrst og fremst þróuð með hagkvæmni í huga. Því þurfa hafnirnar að geta brugðist fljótar við en gert hefur verið en vegna fjárskorts hefur það ekki tekist.

Ég hef t.d., herra forseti, séð fyrir mér að setja mætti upp fleiri stórar hafnir en höfnina í Reykjavík sem mundu sinna vörumóttöku. Höfnin í Reykjavík, eins og komið hefur fram, hefur sérstöðu með það að þangað fara nánast allar vörur sem koma til landsins og þeim er dreift þaðan. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að höfnin í Þorlákshöfn gæti tekið að sér þetta hlutverk að einhverju leyti. Hvers vegna ætti Þorlákshafnarhöfn ekki að geta gert það þar sem þangað eru þó mun styttri siglingar en til Reykjavíkur? Eftir að Suðurstrandarvegur kemur og hugsanlega Kjalvegur, sem menn hafa látið sig dreyma um, þá gætu verið greiðar leiðir frá Þorlákshöfn til allra höfuðstaða landsins á mun hagkvæmari hátt en að sigla með skipi fyrir Reykjanesið sem lengir siglingaleiðina um nokkra klukkutíma. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að í framtíðinni muni þessar áherslur á vöruflutninga breytast og mikilvægi Reykjavíkurhafnar ætti ekki að þurfa að vera eins mikið og það er í dag.

Ég hefði svo sannarlega viljað, herra forseti, sjá meiri peninga til Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs. (GÁS: Það eru engir.) Það eru peningar til Hafnarfjarðarhafnar, það er ekki rétt hjá hv. þm., en það eru fjármunir sem voru hugsaðir til að framkvæma á þessu ári en ekki gafst tími til þess að ljúka því verkefni eða hafnaryfirvöld sáu ekki ástæðu til að fara út í þá framkvæmd.

Ég mun svo koma frekar inn á þetta í andsvari en læt þessari umfjöllun lokið, herra forseti.