Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:09:54 (1576)

1998-12-03 14:09:54# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:09]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ef minni hv. þm. er eins og mér heyrist það vera að ljósastaurar hafi verið ákveðnir á síðasta kjörtímabili er ekki nema von að hann muni ekki vel hvað hefur gerst á öðrum sviðum. Ég verð bara að segja það að minni hans virðist heldur ekki vera í lagi þegar hann talar um loforðalista sem prófkjörsaðilar í prófkjöri Sjálfstfl. í Reykjanesi hafi gefið í prófkjörinu á síðustu vikum. Ég minnist þess ekki að við höfum gefið einhver loforð um framkvæmdir í einhverjum einstökum höfnum í því prófkjöri. Ég fer fram á það að hv. þm. dragi það þá fram. Ég kannast ekki við að hafa gefið slík loforð sjálfur.

Ég hef aftur á móti alla tíð haldið því fram og það úr þessum ræðustóli að mér finnist ekki óeðlileg krafa af hálfu Kópavogsbúa að þeir hafi og eigi sína eigin höfn eins og önnur stærri sveitarfélög á landinu hafa. Það má svo aftur deila um hvað hún eigi að vera stór eða hvort þetta ætti að vera þjónustuhöfn fyrir iðnaðarsvæðið á Digranesinu og Kársnesinu eða hvort þetta ætti að vera höfn fyrir vöruflutninga. Í mínum huga hefur þetta verið fyrst og fremst þjónustubryggja sem gæti þjónað iðnaðinum.

Í Garðabæ er fyrst og fremst verið að hugsa um höfn fyrir skipasmíðastöðina sem var og ég veit ekki til að séu miklar kröfur um frekari bætur í Garðabæ. Aftur á móti eru í Hafnarfirði mjög miklar framkvæmdir fram undan og ég hef ekki getað séð annað en þar hafi menn viljað að Hafnarfjörður yrði inni í því efni þannig að Hafnfirðingar fengju einhverja peninga af hafnaáætlun. Ég var einn af þeim sem stóðu fyrir því að Hafnarfjörður var ekki settur á núllið í síðustu hafnaáætlun. Það ætti hv. þm. að vita enda veit ég ekki betur en ég hafi ásamt öðrum þingmönnum úr Reykjanesi komið því til leiðar. Ég held að hann ætti að reyna að rifja það upp.