Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:38:47 (1586)

1998-12-03 14:38:47# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:38]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Að aldrei, aldrei eigi að gera annað en að byggja upp í Reykjavík og þeir sem stýra málum eigi frekar að leyfa litlar gámahafnir annars staðar. Nú er það svo að ríkið hefur ekkert um Reykjavíkurhöfn að segja sem betur fer vegna þess að Reykjavíkurhöfn stendur á eigin fótum. Ef yfirvöld í Reykjavík og hafnarstjórn Reykjavíkurhafnar sjá ástæðu til þess að byggja og gera betur við sína viðskiptavini þá eiga hvorki samgrh., ráðuneyti né yfirvöld siglingamála og hafnamála að hafa áhrif á það vegna þess að á meðan hæstv. samgrh. er ekki að skipta sér af Reykjavíkurhöfn og leyfir höfninni að blómstra og byggjst upp til að standast kröfur viðskiptavina sinna þá er ekki á meðan verið að taka fjármagn frá öðrum höfnum vegna þeirrar uppbyggingar. Það ber allt að sama brunni hjá hv. þingmönnum sem koma hér og tala um það svona undir rós að eðlilegt sé að draga úr framkvæmdagetu Reykjavíkurhafnar til að byggja upp annars staðar á sama tíma og þeir tala um að meira fjármagn vanti til að gera öðrum höfnum til góða sem hafa einkum og sér í lagi stundað þjónustu við fiskiskipin. Ég fæ ekki samhengi í það hvernig menn geta talað svona tungum tveim, að það vanti fjármagn en það eigi samt sem áður að stoppa þá höfn af sem ekki leitar í kassa ríkisins til að þeir geti farið að byggja annars staðar. Og hvað er þá til skiptanna? (Gripið fram í: Það er ekkert verið að stoppa Reykjavík ...)