Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:00:13 (1590)

1998-12-03 15:00:13# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:00]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær undirtektir sem hafnaáætlunin hefur fengið. Það er rétt hjá hv. 9. þm. Reykn. að það hefði verið æskilegra að hægt hefði verið að leggja áætlunina fyrir þegar í upphafi þings. En það er nú svo að langur aðdragandi er að áætlun eins og þessari og kveðið er skýrlega á um það í lögum hvernig með skuli farið og þeim ferli var einfaldlega ekki lokið fyrr en raun ber vitni. Má kannski segja að unnt hefði verið að leggja áætlunina fram viku fyrr ef ekki hefði svo staðið á að ekki voru haldnir þingfundir í síðustu viku en um það er ekki að sakast.

Ég vil í fyrsta lagi víkja að því hvort þessi áætlun sé rassía eins og sagt var, hvort ástæða sé til að ætla að ekki verði við hana staðið eða hvort um raunhæfa áætlun er að ræða. Ég vil í því sambandi benda á að gert er ráð fyrir því að auka verulega fé til hafnamála en jafnframt er uppi áætlun um að lækka nokkuð þær skuldbindingar sem ríkissjóður hefur á hverju ári vegna hafnargerðar. Þegar þetta hvort tveggja er metið samtímis kemur í ljós að með þessari hafnaáætlun er gætt þess nauðsynlega meðalhófs sem gæta þarf til þess að takast á við stærstu verkefnin í hafnamálum og til þess jafnframt að setja ekki markið svo hátt að veruleg freisting verði til þess síðar að draga þar úr. Ég hygg að með nokkru öryggi megi segja að þessi hafnaáætlun muni standa. Fyrirvarinn lýtur einungis að því að ég hygg að fremur sé útlit fyrir að betur verði gert við hafnirnar á næstu árum en að dregið verði úr því sem hér stendur. Eins og kom fram í ræðum sumra hv. þm. áðan er það einfaldlega vegna þess að víða eru hafnarframkvæmdir mjög brýnar vegna loðnuflotans, vegna mikilvægis sjósamgangna og vegna þess að víða þrengir að höfnum og vegna þess að öryggismálin eru mjög í deiglunni eins og við sjáum gleggst á þeirri miklu áherslu sem lögð er á að ljúka við Grindavíkurhöfn.

Það var auðvitað rétt sem fram kom hjá hv. 5. þm. Reykn., Rannveigu Guðmundsdóttur, að á undanförnum árum hefur verið staðið vel við bakið á Grindvíkingum, Sandgerðingum og Keflvíkingum í sambandi við Helguvík. Það er gott að rifja upp annað slagið hverjum það er að þakka. Eins og hún sagði skýrt áðan hafa jafnaðarmenn staðið sig vel á Suðurnesjum. Ekki spyr ég að. Hitt þótti mér kannski undarlegra að jafnaðarmenn skyldu aldrei komast út fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið í raun í þeirri umræðu sem varð um þessa hafnaáætlun. Þó svo þeir reyndu að víkja til fortíðarinnar varðandi þessar hafnir var athyglin öll á höfuðborgarsvæðið. Áhyggjurnar lutu t.d. ekki að því hvort nægilega hratt væri farið og örugglega í Grindavík. Þetta þótti mér mjög athyglisvert, að ég tali ekki um aðra staði á landinu. En þetta skýrist af því að í þessari hafnaáætlun er reynt að taka eins og hægt er tillit til þarfanna eins og þær eru á hverjum stað. Auðvitað er það rétt sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði áðan að mikil vinna er fram undan hjá samgn. og ég leyfði mér að skilja orð hans svo að hann hlakkaði til þeirrar vinnu og mundi leggja sig fram um að reynt yrði að inna hana af hendi sem fyrst enda eru samgöngunefndarmenn kunnugir hafnamálum um land allt og eiga auðvelt með að setja sig inn í aðstæður og þarfir á hverjum stað.

Ég ítreka svo þakkir mínar, herra forseti, til þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni og vænti þess að samgn. muni geta lokið störfum sem allra allra fyrst.