Kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:48:09 (1598)

1998-12-03 15:48:09# 123. lþ. 32.93 fundur 132#B kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:48]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ástæða þess að farið var í breytingar á íbúðalánakerfinu og því kerfi sem við búum við í húsnæðismálum var sú að félagslega kerfið var komið að fótum fram. Einnig var það svo að mikill skortur var og er á leiguhúsnæði eins og hér hefur komið fram. En í nýju lögunum er gert ráð fyrir því að hægt sé að opna fyrir lánveitingar til þeirra sem vilja reka leiguíbúðir og í 33. gr. laganna er veitt heimild fyrir því að Íbúðalánasjóður geti veitt sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum sem hafa það að markmiði að byggja, eiga eða hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis, lán til bygginga og kaupa á leiguhúsnæði.

Það er sem sagt verið að opna fyrir það að hægt sé að reka leiguhúsnæði í meira mæli en verið hefur og að til þess séu veitt lán frá Íbúðalánasjóði. Ef skortur er á leiguhúsnæði núna þá er væntanlega með þessu verið að auka framboð á leiguhúsnæði. Hér hefur verið nefnt að leigan á leigumarkaðnum væri mjög há og það er rétt, en með auknu framboði á leigumarkaðnum lækka væntanlega leigugjöld. Með allri þessari kerfisbreytingu, eins og hún er hugsuð, er því verið að auka framboð á leiguhúsnæði.