Kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:57:15 (1602)

1998-12-03 15:57:15# 123. lþ. 32.93 fundur 132#B kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði# (umræður utan dagskrár), KJB
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:57]

Kristín Jóh. Björnsdóttir:

Herra forseti. Þetta hefur verið athyglisverð umræða og ég fagna því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hóf máls á stöðu félagslega íbúðakerfisins á Alþingi. Félagslega íbúðakerfið er því miður stór baggi á sveitarfélögunum. Ástand íbúða er víða dapurt, bæði vegna upprunalegra byggingargalla og viðhaldsleysis.

Það er mikilvægt fyrir sveitarfélögin að leita allra leiða til að aðstoða láglaunafólk í húsnæðisvanda, en húsnæðismálin eru stór og mikilvægur þáttur á landsbyggðinni. Greiðsluvandi sveitarfélaganna er mikill og sölumöguleikar engir nema söluverð félagslegra íbúða verði lækkað í takt við markaðsverð viðkomandi sveitarfélags. Miklir fjármunir og vinna hafa farið í félagslega íbúðakerfið hjá sveitarfélögunum. Flest þeirra bíða lausna frá ríkinu á þessum stóra vanda sínum. Því fyrr sem lausnin finnst því betra fyrir alla aðila.

Raunhæft niðurfærsluverð félagslegra íbúða er 90% ríkisins og 10% sveitarfélaganna en ekki helmingaskipti eins og tillögur hafa verið um hingað til. Sú skipting leysir engan vanda.

Herra forseti. Ég ítreka mikilvægi þess að finna lausn á félagslega íbúðakerfinu samhliða vanda sveitarfélaganna og vona að það takist sem fyrst.