Leiklistarlög

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 16:07:38 (1606)

1998-12-03 16:07:38# 123. lþ. 32.7 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Þá heldur áfram umræða um leiklistarlög eftir þessa snörpu umræðu um húsnæðismál. Við 2. umr. um frv. til leiklistarlaga vil ég ítreka að málið hlaut mjög vandlega meðferð í menntmn. eftir 1. umr. þar sem ég gagnrýndi m.a. þetta frv. Afstaða mín til þessa máls í heild birtist í nál. minni hluta menntmn. sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur þegar gert grein fyrir. Við í minni hluta menntmn. flytjum brtt., þ.e. sú sem hér stendur og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir. Við flytjum brtt. við 16. gr. frv. sem á að tryggja að ríkisvaldið styrki þær leiklistarstofnanir sem hafa til þessa notið lögbundinna fjárframlaga úr ríkissjóði, nefnilega Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Bandalag íslenskra leikfélaga, Íslensku óperuna og Íslenska dansflokkinn. Við erum ósammála því að stuðningur við þessar merku menningarstofnanir og félög fari að geðþótta menntmrh. eða framkvæmdarvaldsins hverju sinni.

Við teljum það eitt af grundvallaratriðum menningarstefnu að ákveða með lögum að grundvallarstofnanir á sviði leiklistar njóti opinberra styrkja, hvort sem um er að ræða rótgrónar menningarstofnanir eins og Leikfélag Reykjavíkur, Íslensku óperuna, eða Íslenska dansflokkinn hér á höfuðborgarsvæðinu eða eina atvinnuleikhúsið á landsbyggðinni, Leikfélag Akureyrar, eða þá stórmerkilegt félag eins og Bandalag íslenskra leikfélaga sem hefur haldið uppi leiklistarlífi úti um allt land, alið upp gagnrýna áhorfendur og á örugglega mjög stóran hlut í því að skapa þann mikla leiklistaráhuga sem ríkir meðal þjóðarinnar. Bandalag íslenskra leikfélaga þarf að geta sett upp góðar leiksýningar, með aðstoð fagfólks að hluta til, til að tryggja sem best listræn gæði í sýningum sínum, í starfsemi sinni. Að okkar mati má alls ekki vera undir geðþótta ráðherra komið hvort þessi starfsemi fær opinbert fé og því teljum við að löggjafinn eigi að segja mjög skýrt að þessa starfsemi beri að styrkja.

Í brtt. okkar Svanfríðar Jónasdóttur sem myndum minni hlutann er m.a. lagt til að ríkið styrki áfram Leikfélag Reykjavíkur, Íslensku óperuna og Íslenska dansflokkinn. Samkvæmt núgildandi leiklistarlögum ber ríkinu að styrkja ofannefndar stofnanir en undanfarin ár hafa styrkir ríkisins til Leikfélags Reykjavíkur eingöngu verið formsatriði til að fullnægja lagaskyldu og því í algjöru lágmarki fyrir utan sérstaka 25 millj. kr. fjárveitingu sem tengdist 100 ára afmæli Leikfélags Reykjavíkur árið 1997.

Borgarleikhúsið er metnaðarfull og fjárfrek stofnun sem við í minni hlutanum teljum að ríkinu beri tvímælalaust að styrkja. Þótt hæstv. forsrh. hafi boðað það í ræðu á afmælishátíð Leikfélags Reykjavíkur að vel komi til greina að taka upp þríhliða viðræður milli Borgarleikhússins, ríkisins og borgarinnar um rekstur hússins hefur enn ekkert gerst í þeim efnum. Það frv. sem er nú til umræðu tekur af allar slíkar skyldur þótt ráðherra geti gert slíka samninga ef honum þóknast.

Ég leyfi mér, herra forseti, að færa fram ákveðin rök fyrir því að ríkinu beri að leggja fram fjárframlög til Leikfélags Reykjavíkur og Borgarleikhússins þar sem mér virðist sú skoðun vera að verða ofan á hjá núverandi stjórnvöldum að svo eigi ekki að vera. Þar vil ég nefna í fyrsta lagi að Borgarleikhúsið þjónar áhorfendum sem koma mun víðar að en frá Reykjavík, þeir koma víða að af suðvesturhorninu, samanber vel þekktar leiklistarferðir fólks víða að af landinu. Þar að auki má benda á að Hvalfjarðargöngin opna möguleika fólks til að njóta listar í Reykjavík og þá er ég að tala um fólk frá Vesturlandi.

Í öðru lagi bendi ég á að Íslenski dansflokkurinn hefur núna höfuðstöðvar sínar í Borgarleikhúsinu og það er starfsemi sem ríkinu ber að sjálfsögðu að styrkja og þess vegna tel ég að þetta styrki enn þá rök fyrir því að Leikfélag Reykjavíkur og Borgarleikhússið verði styrkt með opinberu fé.

Í þriðja lagi bendi ég á að borgarleikhús á Norðurlöndunum eru mjög víða kraftmestu leiklistarstofnanir í viðkomandi borgum, t.d. í Helsinki og fleiri höfuðborgum. Þar er það bæði ríki og borg sem yfirleitt standa að slíkri starfsemi.

Undanfarin ár hefur aðsókn verið mikil í Borgarleikhúsið, eða litlu minni en í Þjóðleikhúsinu. Þó er rekstrarfé þess aðeins hluti af rekstrarfé Þjóðleikhússins. Borgin lagði u.þ.b. 140 millj. kr. í rekstur á þessu ári og á núverandi fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 170 millj. fyrir næsta ár. Því munar verulega um þau framlög sem ríkið var með á sinni könnu áður fyrr, sem var í kringum 15--18% af rekstri Borgarleikhússins fram til ársins 1991, en þau hafa sem sagt að mestu fallið niður og þetta kemur niður á allri samkeppnishæfni Borgarleikhússins miðað við Þjóðleikhúsið og önnur leikhús þar sem um mjög umfangsmikinn rekstur er að ræða.

[16:15]

Það sama á að sjálfsögðu við um Íslenska dansflokkinn sem hefur sett upp frábærar sýningar og þjónar að auki mjög mikilvægu listrænu hlutverki fyrir stóran hóp ungs fólks, einkum stúlkna, sem stundar ballettnám frá unga aldri. Ég tel mjög mikilvægt að á Íslandi séu möguleikar fyrir þennan stóra hóp til að nota sitt nám og til þess hreinlega að sjá ástæðu til að leggja á sig svona stíft og agað nám. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að styrkja Íslenska dansflokkinn en því miður eru allar slíkar skyldur lagðar af með núverandi frv.

Herra forseti. Seinni hluti breytingartillögu okkar Svanfríðar Jónasdóttur á að tryggja að samningar þeir sem ráðherra þóknast að gera við aðra leikhópa fái faglega umfjöllun og verði gerðir samkvæmt tillögum leiklistarráðs. Þetta teljum við mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi umræðna í hv. menntmn. þar sem skilja mátti að umræða væri ekki nógu fagleg þegar um slíkar úthlutanir væri að ræða.

Að öðru leyti vil ég ítreka og taka undir þau atriði sem koma fram í nál. minni hluta nefndarinnar. Varðandi 6. gr. frv. vil ég benda á að við 1. umr. setti sú sem hér stendur stórt spurningarmerki við það að leyfa ætti að framlengja ráðningu þjóðleikhússtjóra fram yfir tvö tímabil. Íslenskt leiklistarfólk barðist lengi fyrir því að setja hámarksþak á ráðningartíma þjóðleikhússtjóra og víða erlendis tíðkast slíkur hámarksráðningartími. Að vel athuguðu máli, bæði í menntmn. og í viðtölum við mjög marga aðila, tel ég nú að ákvæðið um auglýsingu á fimm ára fresti ætti að duga til þess að tryggja að hæfasta fólkið hafi möguleika á að sækja reglulega um þessa mikilvægu stöðu og að aukin fagleg umræða muni tryggja nægilegt aðhald. Ég hef því ákveðið að styðja 6. gr. frv. og brtt. nefndarinnar um að þjóðleikhússtjóri hafi menntun á sviði lista og staðgóða þekkingu á starfi leikhúsa.

Herra forseti. Ég tel að þetta frv. hafi batnað töluvert frá því að það var lagt fram á síðasta þingi enda hefur það fengið mjög mikla umræðu í nefndinni og úti í þjóðfélaginu. Nú tel ég að langalvarlegustu annmarkarnir birtist í 16. gr. þess, sem við í minni hlutanum flytjum brtt. við. Það er að mínu mati óviðunandi að lögbundin þátttaka ríkisins í fjármögnun leiklistar í landinu sé takmörkuð við Þjóðleikhúsið og að öðru leyti sé stuðningur ríkisins háður duttlungum menntmrh. hverju sinni. Þessu viljum við hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir breyta, en því miður er ólíklegt að sú tillaga nái fram að ganga.

Herra forseti. Að mínu mati er alveg með ólíkindum hve núverandi hæstv. menntmrh. sækist eftir miklu miðstjórnarvaldi. Mér finnst alveg óviðunandi að Alþingi framselji til framkvæmdarvaldsins vald af því tagi sem hér er til umræðu, vald til að ákveða hvort leiklistin úti um landið allt liggur í dvala eða dafnar. Þetta er einn mikilvægur hornsteinn í menningarstefnu þjóðarinnar sem Alþingi á að móta en ekki framkvæmdarvaldið.

Á undanförnum árum hafa sprottið upp nýir leikhópar og athyglisverð leikhús orðið til, í Reykjavík, í Hafnarfirði og víðar. Þessa starfsemi ber að sjálfsögðu að styrkja þó að vissulega þurfi þar að koma til faglegt og listrænt mat. Ekki er mögulegt, tel ég, að telja alla þessa ágætu aðila upp í lögum, en þær menningarstofnanir sem taldar eru upp í núgildandi leiklistarlögum eru kjölfesta sem ber að styrkja áfram til viðbótar við það efnilega leikhúslíf sem nú er að þróast og þá leikhópa sem enn þá eru að sanna sinn tilverurétt. Þessi mál þurfa að vera í stöðugri þróun, en ég tel algjört grundvallaratriði að Alþingi en ekki ráðherra hverju sinni móti listastefnuna. Það er óviðunandi að ríkið styrki eingöngu Þjóðleikhúsið. Leiklistin verður að fá að dafna úti um allt land.