Mannanöfn og hjúskaparlög

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 16:42:20 (1613)

1998-12-03 16:42:20# 123. lþ. 32.11 fundur 134. mál: #A mannanöfn og hjúskaparlög# (sjálfræðisaldur) frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[16:42]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. á þskj. 324 um frv. til laga um breytingu á lögum um mannanöfn og hjúskaparlög. Nefndin hefur fjallað um málið og aflað um það umsagna. Í frv. er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um mannanöfn og á hjúskaparlögum. Er breytingunum ætlað að færa efni þessara laga til samræmis við hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár sem samþykkt voru á 121. löggjafarþingi þegar ný lögræðislög voru samþykkt.

Frv. er í samræmi við tillögur lagaskoðunarnefndar dómsmrh. sem skipuð var vegna hækkunar sjálfræðisaldurs en nefndin skilaði tillögum sínum í nóvember 1997. Allshn. mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið skrifa Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Hjálmar Jónsson, Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason og Kristín Halldórsdóttir.