Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 10:37:40 (1615)

1998-12-04 10:37:40# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[10:37]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1998. Nefndin hefur við vinnu við frv. einbeitt sér að gjaldahlið þess og skilað nál. og brtt. Hún hefur haft frv. til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjmrn. og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Jafnframt leitaði nefndin eftir áliti Ríkisendurskoðunar og fékk skriflegt álit frá Ríkisendurskoðun að venju um frv.

Meiri hluti fjárln. gerir 46 brtt. við frv. sem samtals nema 619,9 millj. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu en ég mun fjalla um helstu brtt. sem eru skýrðar í nál. á þskj. 395.

Ef eitthvert eitt mál gengur eins og rauður þráður í gegnum þessar brtt. þá er það hækkun á launakostnaði vegna þeirra kjarasamninga sem verið hafa í gangi og aðlögunarsamninga. Vissulega eru ekki öll kurl komin til grafar í þeim málum enn þá. Það mál er í vinnslu einnig í tengslum við frv. til fjárlaga og ég vík örlítið að því síðar varðandi fjáraukalögin.

Ef vikið er að skýringum við einstakar brtt. þá er fyrst til að nefna embætti forseta Íslands. Þar er farið fram á 3,5 millj. kr. aukafjárveitingu til að mæta rekstrarhalla frá árinu 1997 sem embættið nær ekki að gera upp á yfirstandandi ári.

Lagt til að framlag til Alþingis hækki um 8,5 millj. til að mæta útgjaldaauka í tengslum við langt þinghald sl. vor og kostnaði við sérstakt átak í fjarvinnslu til að flýta frágangi á ræðum og birtingu þeirra á vefnum. Yfirvinna fyrri hluta árs og ræðuvinnsla var mun meiri en á sama tíma árið áður og prentkostnaður meiri.

Ef ég vík að forsrn. þá er þar undir Ýmsum verkefnum lagt til að framlag til fjárlagaliðarins hækki um 51,5 millj. kr. Farið er fram á að viðfangsefnið Útboðs- og einkavæðingarverkefni hækki um 49,5 millj. kr. Það er vegna kostnaðar við sölu hlutabréfa ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. sem ekki var gert ráð fyrir í fjárveitingum til útboðs- og einkavæðingarverkefna í fjárlögum 1998. Fyrir gildistöku laga um fjárreiður ríkisins gilti sú regla að kostnaður af hlutabréfasölu var dreginn frá söluandvirði hlutabréfa en eftir gildistöku laganna ber að gjaldfæra kostnaðinn. Nafnvirði hlutabréfa í Fjárfestingarbankanum sem seld voru í haust var 3.332 millj. kr. og nam söluandvirði þeirra 4.665 millj. kr. Gerður var 45 millj. kr. samningur við Fjárfestingarbanka atvinnulífsins um umsjón með sölunni og samdi hann síðan við öll innlend verðbréfafyrirtæki og banka um þátttöku í sölunni. Að auki er 4,5 millj. kr. kostnaður við mat á verðmæti bankans sem endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtæki annaðist. Samtals er því óskað, eins og áður segir, eftir 49,5 millj. kr. viðbótarfjárheimild. Einnig er lagt er til að viðfangsefni 1.90 Ýmis verkefni hækki um 2 millj. kr.

Farið er fram á aukafjárveitingu til að launa störf nefndar sem fjallar um áhrif breyttrar kjördæmaskipunar á byggða- og félagsmál og í öðru lagi til auðlindanefndar upp á 1 millj. kr. Í frv. til fjáraukalaga er gert ráð fyrir 3 millj. kr. kostnaði við starf auðlindanefndarinnar sem kosin var á Alþingi sl. vor. Þetta fjármagn fer að mestum hluta til kaupa á sérfræðiráðgjöf.

Undir menntmrn. er óskað eftir 25 millj. kr. framlagi til Háskóla Íslands til að bæta brunatjón en fjárhæðin tekur mið af kostnaði við að endurnýja kennslutæki sem eyðilögðust og brunatrygging bætir ekki, en hún bætir tjón á húsnæði og föstum innréttingum. Eins og kunnugt er hefur ríkið þann hátt á að tryggja ekki nema lögbundnar tryggingar en brunatjónum er mætt með framlögum á hverjum tíma.

Raunvísindastofnun óskaði eftir 3,8 millj. kr. framlagi til endurnýjunar á jeppabifreið sem eyðilagðist í óhappi á Vatnajökli fyrr á þessu ári.

Framlag til framhaldsskólanna almennt hækkar um 113,9 millj. kr. Það er 9,5 millj. kr. hækkun vegna kostnaðar af kjarasamningum. Þar er um að ræða kostnað af prófum sem svarar til 2,3% af heildarlaunakostnaði og af deildarstjórn um 1,3% eða samtals 129,5 millj. kr. Í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1998 og fjárlaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir 120 millj. kr. til þess að mæta þessum útgjöldum, en eftir stendur 9,5 millj. kr. kostnaður sem ekki hefur verið fjármagnaður. Hins vegar er óskað eftir 104,4 millj. kr. hækkun á framlögum vegna launakostnaðar í framhaldsskólum. Komið hefur í ljós að við skiptingu menntmrn. á fjárveitingum til framhaldsskóla í fjárlögum 1998 var stuðst við forsendur sem leiddu til þess að launakostnaður í skólunum var vanmetinn um 3,5%.

Þjóðminjasafn Íslands. Gert er ráð fyrir að veittar verði 3 millj. kr. til safnsins sem varið verði til verkefna sem útiminjasvið safnsins réðst í fyrr á þessu ári. Annars vegar er um að ræða viðgerð á Silfurgarði í Flatey á Breiðafirði og hins vegar fornleifarannsókn á Eiríksstöðum í Haukadal.

[10:45]

Landsbókasafnið -- Háskólabókasafn. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. hækkun á þessum lið til að mæta auknum launakostnaði Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns vegna kjarasamninga.

Lögð er til 3 millj. kr. hækkun á framlagi til Listasafns Íslands vegna rekstrarhalla safnsins 1997 sem stafar af lækkun á sértekjum safnsins.

Sinfóníuhljómsveit Íslands. Óskað er eftir 2,2 millj. kr. hækkun vegna kostnaðar við kjarasamninga sem hljómsveitinni hefur ekki verið bættur og óskað er eftir 2 millj. kr. hækkun á óskiptu framlagi á liðnum Listir, framlög, til menntmrn.

Utanríkisráðuneytið. Lagt er til að framlag til Mannréttindaskrifstofu Íslands verði hækkað um 4 millj. kr. en þar af eru 2 millj. kr. ætlaðar í verkefni til að minnast árs mannréttinda. Mannréttindaskrifstofan fellur undir dómsmálaráðuneytið en nú er lagt til að hluti opinbers framlags til stofnunarinnar verði á fjárlagalið hjá utanríkisráðuneytinu. Lögð er aukin áhersla á mannréttindi og mannréttindastarf og hefur í því skyni verið gerður samstarfssamningur milli Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, en þetta eru tvær stofnanir sem hafa unnið á þessu sviði mannréttindamála.

Landbúnaðarráðuneytið. Lagt er til að Sambandi íslenskra loðdýraræktenda verði veittur 1,5 millj. kr. styrkur til að standa undir hluta af rekstrarkostnaði félagsins árið 1996. Félagið varð af tekjum það ár þar sem búnaðargjald, sem renna átti til búgreinarinnar, hækkaði ekki úr 0,075% í 0,7% eins og áformað var.

Lagt er til að Veiðimálastofnun fái 6 millj. kr. aukafjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla, m.a. vegna fiskeldisdeildar, en verkefni hennar hafa verið færð til Stofnfisks hf.

Bændaskólinn á Hólum. Alls er lagt til að framlag til skólans hækki um 9 millj. kr. Lögð er til 2 millj. kr. hækkun á liðnum til að mæta tímabundinni hækkun launagjalda. Í annan stað er lagt til að skólanum verði veitt 7 millj. kr. framlag til verkefnis við kynbætur á bleikju. Heildarkostnaður við rekstur verkefnisins er um 14 millj. kr. á ári. Framleiðnisjóður landbúnaðarins og fleiri hafa styrkt verkefnið á undanförnum árum. Stuðningurinn hefur ekki nægt og er uppsafnaður rekstrarhalli árin 1997 og 1998 um 14 millj. kr.

Lagt er til að Hagþjónusta landbúnaðarins fái 1 millj. kr. vegna áhrifa kjarasamninga og rekstrarkostnaðar.

Héraðsskógar. Gerð er tillaga um að framlag til skógræktarátaks á Fljótsdalshéraði hækki um 3,5 millj. kr. Annars vegar er óskað eftir 2 millj. kr. viðbótarframlagi til að mæta halla sem hefur myndast hjá Héraðsskógum á síðustu árum. Hins vegar er lagt til að veitt verði 1,5 millj. kr. til að gera upp við Héraðsskóga kostnað af umfangsmikilli söfnun á lerkifræi árið 1995.

Gerð er tillaga um 1,5 millj. kr. fjárveitingu til Suðurlandsskóga. Þar hefur fallið til nokkur kostnaður sem rakinn er til annarra þátta en gróðursetningar og munar þar mest um þann kostnað sem varð til við upphaf verkefnisins í fyrra til undirbúnings því.

Bændasamtök Íslands. Lagt er til að Bændasamtök Íslands fái 9,6 millj. kr. aukafjárveitingu vegna hækkunar á lífeyrisskuldbindingum. Einnig er farið fram á 4,6 millj. kr. vegna aukinna greiðslna í lífeyrissjóð af launum starfsmanna héraðsbúnaðarsambanda. Fjárveiting í fjárlögum tekur ekki tillit til nýrra reglna um greiðslur í Lífeyrissjóð starfsmanna sem tóku gildi í ársbyrjun 1998. Farið er fram á sömu hækkun í fjárlögum fyrir árið 1999.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Óskað er eftir að Hæstiréttur fái 5,4 millj. kr. til aukins rekstrarkostnaðar í nýju húsnæði Hæstaréttar. Þar er um að ræða fasteigna- og tryggingagjöld, hita- og rafmagnskostnað og öryggisgæslu.

Óskað er eftir að fjárveiting vegna bóta til brotaþola verði lækkuð um 5 millj. kr. en það er ljóst að nokkur afgangur verður á fjárveitingu þessa árs. Þegar fjárveiting var ákveðin í fjárlögum 1996 var óvíst hver heildarbótafjárhæð á þessu ári yrði.

Ríkislögreglustjóri. Farið er fram á 15 millj. kr. fjárveitingu vegna kostnaðar ríkislögreglustjóraembættisins við innheimtu sekta á landsvísu. Í byrjun ársins var tekið í notkun nýtt samræmt kerfi við innheimtu sekta og fellur allur kostnaður við prentun gíróseðla, útsendingu og ítrekanir á sektarboðum á embættið. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999 er samsvarandi fjárveiting á lið ríkislögreglustjóraembættisins.

Ýmis löggæslukostnaður. Farið er fram á fjárheimild til kaupa á nauðsynlegum tækjakosti til útgáfu á nýjum tölvulesanlegum vegabréfum. Heildarkostnaður nemur um 42 millj. kr. Um er að ræða tölvubúnað, hugbúnað og 100.000 tölvulesanleg vegabréf. En löggjöf um þessa nýjung er í vinnslu hér í Alþingi. Fyrirhugað er að ganga frá kaupsamningi í desember 1998.

Sýslumaðurinn á Akranesi. Óskað er eftir aukafjárveitingu að fjárhæð 12 millj. kr. vegna hallareksturs embættisins síðustu árin. Uppsafnaður halli í lok árs 1997 var 26,1 millj. kr. Á árinu 1998 bætist enn við hallann, einkum vegna áfalla og veikinda sem nokkrir starfsmenn embættisins hafa átt í, og stefnir í að uppsafnaður halli í árslok 1998 verði 35,8 millj. kr. en miðað er við að ráðið verði fram úr honum á nokkrum árum samhliða hagræðingaraðgerðum hjá embættinu.

Ýmis rekstrarkostnaðar sýslumannsembætta. Farið er fram á að fjárveiting til að mæta kostnaði sé hækkuð um 10 millj. kr. með hliðsjón af áætlaðri útkomu þessa árs.

Beðið er um hækkun vegna launakostnaðar Fangelsismálastofnunar ríkisins um 18 millj. kr. vegna kjarasamnings við fangaverði.

Þá er komið að félmrn. Farið er fram á 16 millj. kr. hækkun á fjárheimild Vinnueftirlits ríkisins en það er inneign Vinnueftirlitsins á mörkuðum tekjum af vinnueftirlitsgjaldi.

Þá hafði fjárln. til meðferðar tillögu um að Götusmiðjan--Virkið fengi framlag, en þetta er nýtt meðferðarheimili, og gerir tillögu um að Virkið fái 5 millj. kr. framlag til reksturs meðferðarheimilis fyrir tímabilið frá júní til áramóta 1998. Þar eru veitt sérhæfð meðferðarúrræði fyrir unga fíkla á aldrinum 16--20 ára og er markhópurinn ungmenni sem önnur meðferðarúrræði hafa ekki hentað. Framlagið er miðað við það að gerður verði þjónustusamningur við rekstraraðila meðferðarheimilisins og málefni þess verði síðan til meðferðar við fjárlagagerð fyrir næsta ár.

Málefni fatlaðra. Farið er fram á 54 millj. kr. hækkun til að mæta áhrifum kjarasamninga á stofnunum fyrir fatlaða.

Félagsmál, ýmis starfsemi. Farið er fram á 1,4 millj. kr. hækkun á framlagi til móttöku flóttamanna á Blönduósi.

Undir heilbr.- og trmrn. er óskað eftir 6 millj. kr. aukafjárveitingu til aðalskrifstofu ráðuneytisins, aðallega vegna útgjalda við frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði og frv. til laga um lífsýni, en þessi gjöld verða hærri en ráð var fyrir gert vegna þeirrar umfangsmiklu vinnu við undirbúning þessara mála.

Þá er liðurinn Sjúkrahús, óskipt. Farið er fram á 80 millj. kr. framlag og er það ætlað til að mæta rekstrarvanda á fimm sjúkrastofnunum. Í vinnu faghóps á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra voru óleyst vandamál hjá nokkrum stofnunum og ljóst að þar þyrfti viðbótarfjármuni. Lagt er til að fjárveitingin verði notuð til að gera upp rekstrarhalla vegna sameiningar heilbrigðisstofnana á Austurlandi og renni einnig til heilbrigðisstofnana á Suðurnesjum og á Selfossi. Þá er lagt til að af fjárveitingunni verði greiddur rekstrarhalli hjá St. Fransiskusspítala í Stykkishólmi og Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi. Gert er ráð fyrir að framlögin verði greidd til framangreindra stofnana þegar gerðir hafa verið þjónustusamningar um rekstur þeirra en sú vinna er nú í gangi og er á lokastigi.

Þá er komið að liðnum Sjúkrahús og læknisbústaðir. Þar er lögð til 7,1 millj. kr. hækkun. Framlagið er ætlað til skuldagreiðslu til Hjúkrunarheimilisins Hulduhlíðar og er lokagreiðsla á skuld ríkisins við Eskifjarðarbæ vegna stofnkostnaðar þess, en Eskifjarðarbær stóð á sínum tíma að því verkefni en þessi greiðsla er til sameinaðs sveitarfélags.

Þá er lagt til að Krýsuvíkursamtökunum verði veittar 5 millj. kr. til fjárhagslegrar endurskipulagningar Krýsuvíkurskólans. Unnið hefur verið að þessari endurskipulagningu á síðasta ári og ljóst þykir eftir yfirferð fjárln. að vel sé fyrir því máli séð eftir þessa fjárveitingu og þá geti þessi stofnun starfað með eðlilegum hætti.

Þá er komið að reynslusveitarfélaginu Höfn í Hornafirði. Gert er ráð fyrir 11 millj. kr. fjárveitingu í samræmi við ákvæði í samningi um reynslusveitarfélagið, en fjárveitingin er til að kosta þrjú sjúkrarými í stað hjúkrunarrýma. Farið hefur verið fram á sömu fjárhæð til hækkunar á framlögum í fjárlögum fyrir árið 1999.

Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ. Farið er fram á 9,5 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til að ganga frá uppgjöri í tengslum við sameiningu heilsugæslustöðvar og sjúkraskýlis Þingeyrar við Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar.

Þá er komið að fjmrn. Lagt er til að framlag hækki um 68,7 millj. kr. og þar er breytingin þríþætt. Í fyrsta lagi til að mæta endanlegum dómum í fimm völdum fordæmismálum af 40 sambærilegum varðandi ágreining og rétt fyrrum starfsmanna Lyfjaverslunar ríkisins til biðlauna í tengslum við yfirtöku Lyfjaverslunar Íslands hf. á starfsemi stofnunarinnar 1. júlí 1994. Niðurstaða Hæstaréttar er sú að starfsmennirnir eiga rétt til fullra biðlauna auk dráttarvaxta frá 10. jan. 1997 til greiðsludags. Þess er farið á leit að veitt verði 34,5 millj. kr. framlag til greiðslu biðlauna og dráttarvaxta. Í öðru lagi er farið fram á 25 millj. kr. fjárveitingu til greiðslu bóta vegna mistaka lækna á Ríkisspítölum sem leiddi til 100% örorku. Náðst hefur samkomulag milli ríkislögmanns fyrir hönd ríkissjóðs og lögmanns stefnanda um greiðslu skaðabóta að upphæð 25 millj. kr. Að lokum er gerð 9,5 millj. kr. tillaga um hækkun fjárheimilda vegna lokauppgjörs framkvæmda í kjölfar snjóflóðs í Súðavík.

Viðskrn. óskaði eftir 1 millj. kr. vegna hækkunar þóknunar til samkeppnisráðs.

[11:00]

Þá er komið að umhvrn. Þar er óskað er eftir 9,2 millj. kr. hækkun til embættis veiðistjóra. Skýringar má að rekja til þriggja þátta. Í fyrsta lagi vegna ófyrirséðra launaútgjalda. Þá er farið fram á 5 millj. kr. fjárveitingu vegna aukinnar minkaveiði. Um er að ræða endurgreiðslur til sveitarfélaga, en í ár og síðasta ár hefur minkaveiði verið meiri en reiknað var með í fjárlögum. Veiðin stefnir í að verða 6.500 dýr í stað 6.000 samkvæmt áætlun. Í samræmi við 13. gr. laga nr. 64/1994 endurgreiðir ríkissjóður allt að helmingi kostnaðar við veiðarnar eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum. Að lokum er óskað eftir 3 millj. kr. framlagi til reksturs minkahundabús stofnunarinnar. Gert hafði verið ráð fyrir öðru fyrirkomulagi á rekstrinum sem leiddi til sparnaðar. Af því gat ekki orðið en fyrirhugað er að ná fram hagræðingu í rekstri búsins árið 1999.

Farið er fram á 7 millj. kr. aukafjárveitingu vegna átaks Hollustuverndar ríkisins til að ljúka við löggildingu tilskipana ESB um flokkun og merkingar hættulegra efna og efnasambanda.

Það er farið fram á fram á 12,3 millj. kr. fjárveitingu til Landmælinga Íslands til að mæta fyrirsjáanlegri lækkun á sértekjum stofnunarinnar.

Náttúrufræðistofnun Íslands. Gerð er tillaga um að framlag til stofnunarinnar hækki alls um 3,2 millj. kr. Af því eru 2,2 millj. kr. til setursins í Reykjavík til reksturs á viðbótarhúsnæði. Heimild fékkst fyrir viðbótarhúsnæði vegna aukinnar starfsemi sem m.a. stafar af flutningi gróðurkortagerðar frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins til Náttúrufræðistofnunar og eflingu rannsókna á veiðifuglum. Hins vegar er lagt til að Náttúrufræðistofnun Íslands fái 1 millj. kr. til að mæta auknum leigugjöldum á Akureyrarsetri stofnunarinnar.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir þeim brtt. sem meiri hluti fjárln. leggur til. Þær eru eins og áður segir upp á 619,9 millj. kr. Gert var ráð fyrir því að halli yrði 2.800 millj. kr. samkvæmt því fjáraukalagafrv. sem lagt var fram og bætist þessi upphæð því við þann halla. Áður hefur farið fram umræða sem ég ætla ekki að endurtaka að þessu sinni um ástæðurnar fyrir því að þessi halli er á fjárlögum í ár og munar þar mestu um lífeyrisskuldbindingar sem eru færðar samkvæmt nýjum lögum um fjárreiður ríkisins upp á 9,3 milljarða kr.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri að sinni. Ég þakka meðnefndarmönnum mínum, bæði meiri hluta og minni hluta, fyrir samstarfið að þessu frv. Þetta er nokkuð umfangsmikil vinna þó um fjáraukalagafrv. sé að ræða. Það hefur orðið svo að þetta er nokkuð viðamikil löggjöf, og ekki síst vegna þess að þetta er í fyrsta skipti sem fjáraukalagafrv. er sett upp samkvæmt nýjum fjárreiðulögum og erum við því að móta nýja venju í þessu efni og nýja framkvæmd. Ég endurtek þakkir mínar fyrir samstarfið í nefndinni það sem af er. Vissulega er 3. umr. eftir og við þurfum að skoða nokkur mál milli 2. og 3. umr. og ekki síst eins og ég minntist á áður að þörf er á því að fara enn betur ofan í launakostnað stofnana, ekki síst heilbrigðisstofnana, og er verið að vinna á því sviði enn. Þar munu ekki öll kurl vera komin til grafar. Við teljum því nauðsynlegt að líta enn betur á þau mál milli 2. og 3. umr.