Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 11:45:16 (1620)

1998-12-04 11:45:16# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[11:45]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Við höfum heyrt skýringar hv. þm. Ég vek athygli á því að á undanförnum árum hefur verið hert mjög á öllu eftirliti í skattkerfinu. Einnig hefur komið í ljós að það hefur borið nokkurn árangur þannig að tekjur ríkissjóðs hafa aukist. Ég tel að það sé m.a. vegna þess að við höfum eytt verulegum fjármunum í að styrkja eftirlitið, styrkja skattkerfið hvað varðar innheimtu og allt eftirlit þannig að ég tel að við séum á réttri leið enda þarf að gefa þau skilaboð frá Alþingi að það sé vilji alþingismanna og vilji Alþingis að skattkerfið sé sem best og ekki megi gera ráð fyrir því að menn komist upp með undanskot.

Ég vek aftur athygli á því, sem kemur fram í nál. hjá hv. minni hluta fjárln., að það er mat minni hlutans að ofáætlun sé í virðisaukaskattsálagningu. Auðvitað þarf að skoða það eins og annað. En það er nú ekki sú niðurstaða sem meiri hluti nefndarinnar kemst að að það beri að lækka tekjupartinn hvað varðar virðisaukaskattinn og skera niður útgjöld vegna þess.

Hins vegar hefur viljað brenna við hjá stjórnarandstöðunni að hún hafi viljað gera út á óinnheimtar tekjur og hefur flutt brtt. við fjárlög þar sem gert hefur verið ráð fyrir því að herða innheimtuna og ná inn stórkostlega miklum tekjum. En ég held að það sé aðalatriðið að við gerum okkur grein fyrir hvernig staðan er og styrkjum innheimtukerfi ríkissjóðs þannig að það sé í sem bestu lagi og allar tekjur komi inn. Það er mjög mikilvægt.