Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 11:56:03 (1626)

1998-12-04 11:56:03# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[11:56]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Skilyrði í efnahags- og atvinnulífi landsmanna hafa verið óvenjuhagstæð að undanförnu, mikil umsvif og einkaneysla langt umfram það sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Innflutningur varð langtum meiri en áætlað var en í forsendum fjárlaga var reiknað með að almennur innflutningur á vörum ykist um 4,4%. Reyndin verður væntanlega um 26% á þessu ári.

Bifreiðainnflutningur verður a.m.k. tvöfalt meiri en áætlað var og svona mætti áfram telja. Þetta er vitanlega meginástæðan fyrir umtalsverðri aukningu á tekjum ríkissjóðs þótt nú séu hins vegar vísbendingar um að aðeins sé farið að draga úr einkaneyslunni og ekki ólíklegt að virðisaukaskattur muni ekki skila jafnmiklu og gert er ráð fyrir í síðustu áætlunum. Á þetta er bent í áliti minni hluta sem hv. þingmenn Sigríður Jóhannesdóttir og Gísli Einarsson hafa hér rætt og gert grein fyrir.

Staðreyndin er sú að allar forsendur fjárlaga þessa árs hafa reynst ótrúlega fjarri lagi og ekki að undra þótt a.m.k. við sem skipum minni hluta fjárln. séum tortryggin á þær tölur sem við erum almennt að fjalla um við fjárlagagerðina. Þetta er því miður gömul saga og ný og vitanlega er aldrei hægt að spá með fyllsta öryggi, þetta er nú einu sinni spá. En fyrr má nú vera.

Það er auðvitað áhyggjuefni að þrátt fyrir verulega auknar tekjur skuli ekki takast að loka fjárlagadæminu með afgangi eins og stefnt var að við afgreiðslu fjárlaga heldur stefnir nú í hallarekstur upp á 3,4 milljarða þegar tekið er tillit til frv. þessa sem við ræðum og fram kominna brtt., þá fer þetta að verða harla pínlegt fyrir þá stjórnarliða sem tala sífellt hæst um ábyrga fjármálastjórn og nauðsyn hallalausra fjárlaga.

Vitaskuld verður að horfa til þess að við búum nú við breytta uppsetningu fjárlaga þar sem taka þarf með í reikninginn allar skuldbindingar og munar þá að sjálfsögðu mest um lífeyrisskuldbindingarnar. Sé horft fram hjá þeim liti dæmið allt öðruvísi út og við værum með vænan afgang en ekki halla. Það er t.d. mat Ríkisendurskoðunar að við samanburð á hækkun rekstrargjalda milli áranna 1997 og 1998 kom í ljós að tæplega helmingur hækkunarinnar er einmitt vegna breytinga á framsetningu reikningsskila A-hluta ríkissjóðs. Þetta þarf auðvitað að hafa í huga.

Eins og menn hafa verið að viðra hérna eru e.t.v. ekki öll kurl komin til grafar, við eigum eftir að sjá það betur. Nokkuð hefur verið talað um þessar vísbendingar um minni tekjur af virðisaukaskatti en áætlað var en það er ýmislegt sem er e.t.v. vanmetið gjaldamegin og þá bendum við m.a. á í minnihlutaálitinu að launakostnaður sé hugsanlega vanmetinn enn. Samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar gæti munað þar einum milljarði kr. og það er eingöngu miðað út frá þeim tölum og upplýsingum um launaþróun sem eru fyrir hendi. Þarna gæti því staðið talsvert út undan.

[12:00]

Eins og kemur fram nál. minni hlutans þá minnum við enn einu sinni á það að framkvæmdarvaldinu ber að fara varlega og af fyllstu ábyrgð með heimild sína til aukafjárveitinga og í raun á aðeins að beita slíkri heimild í brýnni neyð. Að öðrum kosti á framkvæmdarvaldið að leita samþykkis Alþingis áður en veitt er fé til aukinna verkefna eða viðbóta af einhverju tagi. Á þetta hef ég minnst í hvert einasta sinn sem við ræðum fjáraukalög því að mér finnst þetta skipta mjög miklu máli. En kannski heyra menn ekki þessi varnaðarorð. Ég er hrædd um að margt af því sem finna má í þessu frv. svo og í brtt. meiri hluta fjárln. sé einfaldlega búið og gert og þegar notað þannig að samþykkt Alþingis er bara formsatriði í mörgum tilvikum. Við því er ekkert að segja þegar brýna nauðsyn ber til.

Ýmislegt getur valdið því að ekki er hægt að bíða eftir samþykkt Alþingis. Ég nefni sérstaklega ef um náttúruhamfarir er að ræða eða eitthvað því um líkt þar sem verður að bregðast snarlega við. Mér er það umhugsunarefni hvers vegna ævinlega þarf að bíða eftir sérstöku frumvarpi til fjáraukalaga fram á haust og hvers vegna ýmsar tillögur ríkisstjórnarinnar um fjárframlög til hinna ýmsu verkefna eru einfaldlega ekki teknar oftar til umræðu því að margt af því sem hér er er löngu vitað og ákveðið við borð ríkisstjórninnar kemur síðan ekki til kasta Alþingis fyrr en löngu síðar. En nóg um það.

Ég ætla ekki tína til einstaka liði. Það hafa menn gert hér. Ég get þó ekki látið hjá líða að fara örfáum orðum um eilífðarmálin, þ.e. heilbrigðismálin sem við höfum tekið marga snerruna um á þessu kjörtímabili og ekki að ósekju. Heilbrigðismálin hafa verið í algjöru uppnámi má segja allt þetta kjörtímabil og reyndar miklu lengra aftur þótt ástandið hafi að mínu mati sjaldan verið jafnslæmt og á síðasta ári þegar nánast hver einasta stofnun á heilbrigðissviðinu var í slíkri kreppu að menn hreinlega sáu ekki til sólar. Sjúkrahús og heilsugæslustöðvar um allt land hafa verið í bullandi hallarekstri og ástandið hefur verið þeim mun verra af þeim sökum að engar lausnir voru í sjónmáli. Það hefur tekið ótrúlegan tíma að komast að einhverri niðurstöðu um þessi mál og verið allt of hart gengið að mínu mati að þeim sem hafa þurft að búa við ónógar fjárveitingar til þessarar bráðnauðsynlegu þjónustu.

Ég tel ótvírætt að stjórnendur og starfsfólk í heilbrigðisþjónustu hafi lagt verulega hart að sér og sýnt mikinn skilning og vilja til þess að hagræðingarkröfur næðu fram að ganga og árangur er að mínu mati ótvíræður. En álagið á stofnanir og starfsfólk hefur verið nánast ómanneskjulegt og ég tel ekki að búið sé að leysa allan vanda í þessu efni.

Sífelldar kröfur um hagræðingu og sparnað hafa tekið verulega á stjórnendur og allt starfsfólk sem er orðið mjög þreytt og vonlaust. Starfsandi og andrúmsloft á stofnunum er orðið að mörgu leyti mjög alvarlegt. Öryggisleysi og óánægja hafa farið illa með þessar mikilvægu þjónustustofnanir og verst er að þetta ástand hefur bitnað á þeim sem síst skyldi, þ.e. þeim sem þurfa og eiga rétt á þjónustu. Það er mál að linni í þessum efnum.

Reyndar hefur ýmislegt gerst á síðustu mánuðum og stjórnvöld hafa nálgast það að taka á þessum vanda. Ótal nefndir og starfshópar hafa verið að störfum og vissulega orðið nokkuð ágengt. Það er þó alls ekki svo að allir uni glaðir við sitt. Það sanna fjárveitingabeiðnir og lýsingar og athugasemdir gesta okkar í fjárln. frá hinum ýmsu stöðum á landinu. Neyðaráköll, það var ekki hægt að kalla það neitt annað en neyðaróp sem komu frá flestum stofnunum á síðasta ári. En engu að síður er neyðin er ekki jafnmikil og sár og áður eða þegar við vorum að fást við þetta dæmi þannig að ég held að segja megi að mjög margt hafi gerst í þessu efni og er m.a. tekið á ýmsu í þessu fjárlagafrv.

Þó að vissulega sé tekið á ýmsum vanda og hallarekstri sem var raunar fyrirséð og bent á í umfjöllun og umræðum af hálfu minni hlutans þá stendur enn ýmislegt út af. Ég ætla svo sem ekki að tína upp einstök dæmi nema eitt sem ég vil sérstaklega nefna og það er að í Kópavogi hefur nú verið byggð myndarleg heilsugæslustöð. Það var afskaplega brýn og þörf framkvæmd. Þörfin að koma þar upp myndarlegri heilsugæslustöð var afar brýn og hún þarf að komast sem fyrst í gagnið. Byggingin er sem sagt risin þótt enn hafi ríkissjóður að vísu ekki greitt kostnað sinn að fullu. En við því má búast að úr því verði bætt á næsta ári.

En þessi bráðnauðsynlega þjónusta þarf meira en byggingu. Það þarf meira en hús til þess að reka heilsugæslu. Enn vantar þar allan tækjabúnað og ég legg áherslu á að á því verði tekið hið bráðasta svo að stöðin geti tekið til starfa um áramót eins og til stóð.

Í brtt. meiri hlutans er að þessu sinni enn einu sinni veitt ákveðin heildarupphæð sem verja á til að leysa vanda nokkurra sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Er það vel að þeim sé komið til liðs og við í minni hlutanum styðjum vitanlega að þar verði tekið á málum.

Hins vegar virðist það skoðun ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárlaganefndar að stóru sjúkrahúsin í Reykjavík séu ekki of góð til þess að sitja uppi með meira en milljarðs króna halla. Það hljótum við að gagnrýna harðlega. Við í minni hlutanum erum ekki þeirrar skoðunar að sjúkrahúsin þurfi að draga slíka upphæð með sér yfir áramótin og við leggjum til að þeim verði bættur þessi halli að hluta. Við leggjum ekki til alla þessa upphæð vegna þess að það er einu sinni viðurkennt að það eigi að vera þolandi að draga svo sem kostnað við mánaðarrekstur á eftir sér. Þess vegna leggjum við til að reynt verði að taka á þessu þannig að þetta verði 300 millj. kr. á hvort hús. Kannski má segja að það hefði mátt reikna þetta út einhvern veginn öðruvísi vegna þess að í rauninni er staða Sjúkrahúss Reykjavíkur enn þá erfiðari en Ríkisspítalanna. Þetta er þyngri halli að bera fyrir Sjúkrahús Reykjavíkur en Ríkisspítalana sem eru stærri stofnun og viðameiri.

Þessar hallatölur sem stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík er gert að búa við eru algjörlega óviðunandi og ósanngjarnar. Búið er að vinna mjög mikið í þessum málum og að mínu mati er kominn fullur rökstuðningur og sannanir fyrir því að það beri að taka myndarlegar á en hér er gert. Stjórnendur og starfsfólk þessara þjónustustofnana hafa lagt á sig mikla vinnu og erfiði til þess að halda uppi þjónustustigi, halda í horfinu, auk þess að vera opin fyrir nýjungum í læknisfræði og annarri þjónustu. Þetta hefur komið illa niður á þreki og vinnu. Starfsfólk hefur verið undir mjög miklu vinnuálagi og ég held að menn verði að horfast í augu við að hér hefur mikið verið lagt af mörkum til þess að bæta rekstur og fara rétt að öllu þannig að það er ósanngjarnt að taka ekki verulega á málum. En um þetta munum við sjálfsagt ræða nánar í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Þetta er tillaga okkar að svona verði tekið á málinu núna og ég vona að menn skoði það í fullri alvöru að taka eitthvað betur á.

Eins og ég sagði þá ætla ég ekki að fara nákvæmlega í einstaka liði. Við í minni hlutanum styðjum margar þessar tillögur meiri hlutans. Það verður kannski að segjast að átök um einstaka liði hafa kannski ekki verið jafnhörð og óvægin og oft áður. Kannski eru ástæðurnar þær að þeim meirihlutamönnum er eitthvað lausari ávísanahöndin en oft áður og skiptir þá vitanlega bæði máli að skárra ástand er í efnahagsmálum en oft áður og kannski skiptir einhverju að kosningar eru að vori.

Þó hafa sæmilegar aðstæður í þjóðfélaginu og vilji hv. þingmanna til að gera sem flesta kjósendur sér handgengna og ánægða ekki dugað til þess að taka á vanda þeirra sem hafa eingöngu framfærslu af grunnlífeyri með tekjutryggingu vegna elli eða örorku. Það er í rauninni sorglegt og algjörlega óviðunandi að þjóðfélag eins og við búum í geri ekki betur við þetta fólk en raun ber vitni. Það er sett til hliðar.

Við í minni hlutanum létum fara yfir þróunina í þessum málaflokki og reikna út tölur í því sambandi. Þær tala sínu máli. Þetta fólk hefur setið eftir samanborið við launaþróun síðustu ára og þess vegna leggjum við fram tillögu um aukin framlög til lífeyristrygginga til þess að hægt verði að rétta hlut þessa fólks og við höfum ekki sagt okkar síðasta í þessu máli. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Gísli S. Einarsson, fjallaði um þetta og það er ánægjulegt til þess að vita að menn ætla að reyna að taka hér eitthvað á. Því miður verð ég að segja alveg eins og er að ég er ekkert sérstaklega vongóð um að nægjanlega myndarlega verði staðið að verki til að þetta fólk geti búið við sömu kjör og aðrir í þjóðfélaginu þar sem maður hlýtur að setja einhverjar lágmarkskröfur í því efni og líta til þess að þessu fólki eru allar bjargir bannaðar með að afla sér nokkurra aukatekna.

Hv. síðasti ræðumaður nefndi dæmi um hvernig farið getur þegar farið er mjög nákvæmlega eftir reglum sem verður auðvitað að setja til að tryggja að aðstoð komi til þeirra sem á henni þurfa að halda. Ég get því ekki stillt mig um að nefna eitt dæmi sem mér er ríkt í huga. Kona hafði samband við mig og var mikið niðri fyrir. Móðir hennar hafði búið ein og fengið heimilistryggingu og tekjutryggingu. Nú var hún orðin ófær um að búa ein og flutti til dóttur sinnar en þá missti hún heimilistrygginguna. Þar með lækkuðu tekjur hennar og þeim fannst þetta báðum að sjálfsögðu afskaplega ósanngjarnt. Þannig eru ýmis dæmi sem við ættum að gefa okkur tíma til að skoða vel og athuga hvort ekki er hægt að bæta úr.