Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 12:19:43 (1628)

1998-12-04 12:19:43# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[12:19]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. varaformanni fjárln. fyrir að bregðast við ræðu minni og fúslega mundi ég ræða vanda þessara stóru stofnana lengi dags. Það er hárrétt, og ég sá reyndar ekki ástæðu til að nefna það sérstaklega, að vissulega er verið að leggja fram aukið fé til þessara stóru spítala í fjáraukalögum og fjáraukalagafrv. og einnig er áætlað að auka fé til þeirra á fjárlögum næsta árs. Það segir okkur hins vegar hve vandinn hefur verið orðinn gríðarlega mikill og uppsafnaður að samt skuli vanta heilan milljarð upp á að vanda þeirra sé mætt að fullu. Við höfum fullan skilning á því að þetta er stórt dæmi að leysa en það er spurning hve lengi er hægt að bíða eftir nýjum úttektum og athugunum. Það hafa verið að störfum starfshópar og nefndir á nefndir ofan nú til margra ára og ég sagði í máli mínu áðan að ég tel að fram séu komin full rök fyrir því að taka svo á þessum hallarekstri að hann verði hreinlega þurrkaður út. Það er svo spurning hvort menn finna leiðir til að hagræða enn og aftur og enn meira til þess að hægt sé að veita eða verða við þeim kröfum sem eru nú gerðar í heilbrigðisþjónustu og ekki síst til þessara hátæknisjúkrahúsa.