Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 12:21:47 (1629)

1998-12-04 12:21:47# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[12:21]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svarið og viðurkenningu á því sem við er að fást. Ég held að afar mikilvægt sé að halda því áfram til haga að við erum að stórauka fjármuni til sjúkrahúsanna sem hafa vissulega átt við fjárhagsörðugleika að etja, við vitum það mætavel í fjárln., en það var niðurstaða okkar, meiri hluta fjárln., að það væri algert grundvallaratriði að við sæjum betur til enda á þeim skipulagsbreytingum sem unnið hefur verið að áður en við gerðum tillögu um aukna fjármuni á þessu ári, 1998, umfram það sem gerð er tillaga um í fjáraukalagafrv. Síðan er umhugsunarefni þegar við lítum á greinargerð forsvarsmanna Ríkisspítalanna um margvísleg viðfangsefni sem þarf að sinna, langa biðlista og tilefni til útgjalda á heilbrigðissviðinu að við skulum halda áfram að byggja, að við skulum halda áfram að fjölga sjúkrastofnunum sem þurfa fjármuni til byggingarframkvæmda og þurfa fjármuni til rekstrar á sama tíma og talið er að meira fjármagn þurfi inn í heilbrigðiskerfið til að sinna umönnun sjúkra og til að sinna lækningum. Ég held það hefði t.d. verið miklu skynsamlegra að gera sér betur grein fyrir hvort fresta mætti einhverjum framkvæmdum til að geta lagt fjármuni t.d. í tæki, nýjan búnað, ný lækningatæki fremur en steinsteypu.