Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 12:24:06 (1630)

1998-12-04 12:24:06# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[12:24]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Allt er þetta satt og rétt sem hér hefur komið fram og ég geri mér alveg grein fyrir að meiri hlutinn er okkur sammála um að hér er stórt dæmi og sjálfsagt hafa allir vilja til að taka á því en vegna þess að hann nefndi þessa spurningu sem menn standa kannski frammi fyrir, hvort rétt sé að auka framkvæmdir í byggingum og slíku eða hvort menn hefðu frekar átt að taka myndarlegar á rekstrinum og bæta tækjakost, hlýt ég líka að bæta því við að mikið skortir á að þær byggingar sem fyrir eru fái nægjanlegt fé til viðhaldsverkefna. Eins og við vitum og var margrætt á síðasta ári er t.d. ástandið á Sjúkrahúsi Reykjavíkur mjög slæmt hvað þetta varðar og þar horfumst við í augu við vanda upp á 1 milljarð kr. ef allt væri tínt til. En aðeins að lokum, þetta eru sjálfsagt ekki síðustu orðin um þessi miklu og stóru vandamál í heilbrigðisþjónustunni og vonandi náum við að leiða þau til sæmilegra lykta.