1998-12-04 13:13:08# 123. lþ. 33.92 fundur 135#B undirritun Kyoto-bókunarinnar í ljósi niðurstöðu ráðstefnunnar í Buenos Aires# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:13]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er mjög gott að þetta mál skuli koma hér til umræðu á þessum tíma þannig að alþingismenn hafi möguleika á að koma skilaboðum og viðhorfum sínum til hæstv. ríkisstjórnar sem er að melta þetta mál að því er hæstv. utanrrh. segir, þ.e. spurninguna um hvort Ísland ætli að undirrita innan tilskilins tíma til að geta gerst stofnaðili að Kyoto-bókuninni. Í sambandi við það er margt að athuga. Ísland stendur eitt OECD-ríkja eftir og hefur ekki undirritað þessa bókun. Bandaríkin bættust í hópinn meðan á ráðstefnunni í Buenos Aires stóð og við erum þannig í mjög sérstöku ljósi að því er þetta varðar.

Það er rétt hjá málshefjanda að Ísland losar gróðurhúsalofttegundir að meðaltali hliðstætt því sem gerist hjá Vestur-Evrópuríkjunum, aðildarríkjum Evrópusambandsins. Hæstv. utanrrh. andmælir því og segir það alrangt. Hann ætti að kynna sér skýrslur umhvrh. sem hefði þurft að vera viðstaddur þessa umræðu. 8,6 tonn á íbúa sem svarar til meðaltalsins innan Evrópusambandsins.

Spurningin um undirritun er afar mikilsverð. Aðili sem ekki undirritar fyrir 15. mars nk. getur aðeins gerst aðili að Kyoto-bókuninni með staðfestingu. Það er ekkert milliskref þar eftir. Þetta upplýsti ráðuneytisstjóri umhvrn. í umhvn. á dögunum og ég skora á hæstv. ríkisstjórn allra hluta vegna að undirrita hið allra fyrsta þessa bókun, gerast þátttakandi í þessu ferli og sjá til þess að Ísland verði samferða öðrum þjóðum í sambandi við loftslagsmálin.