1998-12-04 13:20:32# 123. lþ. 33.92 fundur 135#B undirritun Kyoto-bókunarinnar í ljósi niðurstöðu ráðstefnunnar í Buenos Aires# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:20]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég spurði mjög einfaldrar spurningar, þ.e. hvort ríkisstjórnin ætli að undirrita Kyoto-bókunina fyrir 15. mars nk.? Ég fékk ekkert svar við þessari spurningu.

Hæstv. ráðherra bar á móti því að losun gróðurhúsalofttegunda á mann væri jafnmikil hérlendis og í hinni iðnvæddu Evrópu, talaði um að ég færi með rangfærslu. Hæstv. ráðherra ætti að lesa skýrslu hæstv. umhvrh. en þar segir m.a.:

,,Á hinn bóginn er útstreymið nálægt því hið sama og er að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins.``

Þetta er löngu kunn staðreynd í umræðunni um þessi mál. Ég hef ekki reynt hæstv. utanrrh. að því að fara með ranga hluti þannig að hér hefur honum einfaldlega skjöplast í tölum og er svo sem ekkert meira um það að segja en þá eiga menn ekki að kveða svona fast að orði eins og hann gerði fyrst menn eru ekki öruggari á þessari mikilvægu staðreynd.

Vitaskuld vita allir að undirritun þýðir að setja þarf í gang ferli til samþykktar. Málið þarf að koma til Alþingis en hins vegar er vitað að þegar búið er að undirrita er ríkisstjórnin siðferðilega að skuldbinda sig að taka fullan þátt í því sem samþykktin gengur út á og það er þess vegna sem öll OECD-ríkin hafa skrifað undir. Það á eftir að halda margar ráðstefnur um útfærslu á þessari hugmyndafræði og íslenska ríkisstjórnin getur haldið áfram að tala fyrir sínu séríslenska ákvæði á þeim fundum. En hún hefur þá miklu betri stöðu til þess ef hún hefur undirritað bókunina og sett í gang ferli til að staðfesta hana.

Hins vegar er ljóst, herra forseti, að það sem er niðurstaða úr þessari umræðu eru skilaboð ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanrrh. gagnvart umhverfissinnum í landinu. Ekki er í augsýn nein stefnubreyting af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það á að halda áfram algerlega óbreyttri stefnu. Það á ekki að viðurkenna hina siðferðilegu ábyrgð samfélagsins og taka þátt í því að vinna gegn þessari vá heimsins með öðrum þjóðum.