1998-12-04 13:22:51# 123. lþ. 33.92 fundur 135#B undirritun Kyoto-bókunarinnar í ljósi niðurstöðu ráðstefnunnar í Buenos Aires# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að losunin að meðaltali í OECD-ríkjunum sem alltaf er verið að bera saman í þessu sambandi er tæplega 50% meiri en á Íslandi. Það er sú viðmiðun sem ég hef verið að vitna til vegna þess að þegar hv. þm. stendur upp þá er hann fyrst og fremst að miða við OECD-ríkin. Það er sú viðmiðun sem hefur verið lögð til grundvallar.

Mismunurinn á afstöðu stjórnarandstöðunnar, sem kemur fram við þessar umræður, er að hún telur það vera rangt að halda uppi sérstökum málum að því er varðar Ísland. Ríkisstjórnin ætlar sér að halda á málinu eins og hún telur hagstæðast til þess að koma því fram. Nú er fullyrt af hv. þm. að það muni vera hagstæðast fyrir ríkisstjórnina að gera það með því að standa að undirritun bókunarinnar. Það er það mat sem fer núna fram. Hins vegar er mikil gjá á milli hv. þm. og ríkisstjórnarinnar í þeim efnum því að hann er að halda því fram að ekki eigi að leggja áherslu á það að nýta endurnýtanlega orkugjafa á Íslandi, t.d. með virkjunum austan Vatnajökuls og það er að sjálfsögðu alvarlegt mál.

En að vera að koma upp eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og biðja menn að taka mengunina úr augum sér. Er það að hafa mengun í augum sér að vilja nýta endurnýjanlega orkugjafa á Íslandi? Er það ekki ansi mikið sagt, hv. þm.? Eigum við ekki að reyna að halda umræðunni eitthvað á öðrum nótum?